Sumarsólstöður

Ég fyllist alltaf einhverjum trega þegar sumarsólstöður bresta á. Ég hef hlakkað svo lengi til langra daga og bjartra nótta að tilhugsunin um að daginn fari að stytta er eins og mara sem hangir yfir - ákveðin vissa um að veturinn komi á einhverjum tímapunkti með myrkrið sem mig kvíðir svo oft fyrir.

Myrkur sem kemur með endalok sumarsins fyrr en varir, kulda sem nístir inn að beini og almennri vosbúð og volæði.

Svona er hugurinn undarlegur. Sumarið er varla hálfnað, meira að segja minn eigin afmælismánuður (og allt sumarfríið mitt!) eftir - en þessi tímamót sem sólstöðurnar marka hafa samt þessi áhrif á mig.

En svo er annað með sumarsólstöður, þær eru töfrandi tími ásta og einhvers dulmagnaðs. Í mörgum löndum má finna ýmsa þjóðtrú tengt sólstöðum - eða réttara sagt Jónsmessunótt. Ástæðan fyrir því að Jónsmessan fellur ekki beint á sólstöðuna er einfaldlega að þegar dagurinn var valinn af Rómverjum, eða kaþólsku kirkjunni réttara sagt, þá var dagsetningin ákveðin út frá þeim tíma sem Rómverjar voru vanir að halda sumarsólstöður - og akkúrat 6 mánuðum á undan fæðingu Jesú, sem ákveðið hafði verið að væri 24. desember í flútti við rómversku dagsetninguna fyrir vetrarsólstöður. Jesú átti að tákna nýtt upphaf og því var ákveðið að hans afmæli hlyti að vera í desember. Enginn veit það fyrir víst en sólstöðurnar hafa verið hátíð hjá mannfólkinu síðan löngu áður en afmæli Jesú og Jóns (Jóhannes skírari) urðu einhver tilefni til fagnaða. Ævaforn hátíð í raun.

Það eru því nokkra nætur sem tengjast þessari þjóðtrú - sólstöðunóttin sjálf og svo Jónsmessunóttin, 24. júní. Ég held að þetta tímabil sé allt kynngimagnað.

Ég er til að mynda stödd í Svíþjóð þar sem mun meira er gert úr sólstöðunum en heima á Íslandi. Mér finnst það ákveðinn léttir að vera hér að fagna, frekar en að sitja bara heima og hugsa um að daginn sé farið að stytta með tilheyrandi vonbrigðum. Held að til framtíðar ætli ég að halda uppteknum hætti og fagna á sólstöðum. Tína fallega blómvendi og borða góðan mat (ég þarf td að tína 7 ólík blóm og setja undir koddann minn, svo ég geti dreymt um ástina næstu nótt - mikilvægt!)

Ég vil læra að fagna þessum tíma - frekar en að einblína á komu vetrar. Fagna því sem hefur áorkast á árinu hingað til. Fagna því að sumarið hafi aftur tekið við af vetrinum, hringrás lífsins heldur áfram og - viti menn - á eftir erfiðleikum kemur yfirleitt hamingja, það birtir til.

Í staðinn fyrir að hugsa til þess að veturinn sé yfirvofandi og óttast að sumarið muni renna mér úr greipum á einhverjum tímapunkti - að sýna þakklæti fyrir að það hafi komið og minnt mig á alla fegurðina í lífinu.

Sumarið, jafnt og veturinn, er hluti af lífinu. Mig langar fátt eitt meir en að sumarið fylgi mér í gegnum veturinn, hlýjan í hjartanu sem það vekur, getur eflaust yljað manni í gegnum erfiðustu vetrarstormana. Þess vegna þarf þakklætið að vera til staðar, svo þessar björtu sumarnætur virki eins og hleðsla. Taka þessa undursamlegu orku með inn í myrkrið.

Sumarið er uppáhalds árstíðin mín. Ég þreytist ekki á að segja það. Það magnar fegurðina í náttúrunni og þegar allt er í blóma verð ég glöð. Ég held það sé deginum ljósara að ég elska sumarið - meira en margt - og til þess að ég láti ekki yfirvofandi myrkur ræna mig gleðinni sem hækkandi sól færir mér, verð ég að vera þakklát og meyr, fagna því að hafa fengið að upplifa bjartari daga og nætur, og rækta sumarið innra með mér. Þá get ég vonandi farið inn í veturinn með glampandi sól og sumar í hjarta, og yljað mér yfir því allan ársins hring.