dýr um nótt
Á loftnetinu á næsta húsi situr fugl sem syngur hástöfum. Söngur hans er ljúfur og vekur hjá mér kátínu. Ekta íslensk sumarnótt þó hitastigið sé ekki orðið með því besta sem orðið getur. Ég sit inni í rökkrinu - sem er samt bjart og fullt af von, því nóttin verður ekkert mikið dekkri núna - og skrifa þessi orð. Ég er ekki uppfull af neinni sérstakri andagift í kvöld, annað en að mig langaði að skrifa. Ég ákvað að ég myndi minnast á fuglinn sem situr og syngur svo fallega fyrir mig, en hann átti að vera einhver hliðarfrásögn í lýsingu minni af deginum.
Aftur á móti þykir mér svo vænt um hann, syngjandi þarna á loftnetinu, því mér líður eins og hann sé að vanda sig sérstaklega fyrir mig. Þess vegna slaufa ég því að skrifa um daginn og frekar rifjast upp fyrir mér ástin sem ég bar í garð Mola litla - sem var líka bara lítið dýr sem vandaði sig sérstaklega fyrir mig. Ég bjóst aldrei í lífinu við því að ég yrði nokkurn tímann hundamanneskja (svo sterkt var kattareðlið) þar til ég hitti Mola. Moli var alltaf góður við mig, hann passaði upp á mig og kom og sleikti burt tárin mín þegar ég þurfti á því að halda. Stundum kom hann áður en ég grét og ég fattaði að hann vissi að nú væru tilfinningarnar ekki alveg stöðugar.
Moli var líka léttur á fæti og fullkominn göngufélagi. Hann labbaði alltaf þétt upp við mig, á sama hraða og ég, og stóð hnarreistur þegar við námum staðar - enda hafði fólk oft orð á því hvað hann væri virðulegur miðað við chihuahua. Þeir fá oft slæma útreið greyin en það er nú yfirleitt því um að kenna að fólk elur þá upp eins og leikföng frekar en hunda. Moli var kannski sambland af því, hann var þó fyrst og fremst hundur - þótt hann væri stundum dramatísk prímadonna. Það var sennilega frekar persónuleikinn hans en uppeldið.
Mér þótti alltaf hræðilega erfitt að sjá Mola þjást. Að sama skapi brestur hjarta mitt enn yfir því að hafa ekki náð að kveðja hann almennilega. Hann var eins og hver annar fjölskyldumeðlimur og sama hvað bjátaði á, þá var hann alltaf góður við mig. Ég held að Moli hafi alltaf litið svo á að hann væri að passa mig, frekar en ég hann.
Nú er fuglinn farinn af loftnetinu og einhvern veginn í millitíðinni tók ég pásu frá skrifunum og hugurinn reikaði annað. Þegar ég tók eftir því að hann væri floginn burt þá hugsaði ég, kannski var hann bara þarna til að minna mig á Mola litla. Litla hundinn sem Svavar kynnti mig fyrir og varð órjúfanlegur partur af mínu lífi svo lengi.
Líf manns mótast af flóði og fjöru, persónum sem koma og fara. Í þessu samhengi hef ég verið að átta mig á því að tími sumra sé styttri í lífi manns en annarra - það þýðir samt ekki að væntumþykjan eða minningarnar séu ekki raunverulegar eða góðar. Það er gott að geta elskað alla þessa reynslu og lærdóm sem mótaði mann, þrátt fyrir erfiðið. Og svo lýkur sumum tímabilum bara, af einni ástæðu eða annarri.
Tími Mola í mínu lífi er liðinn. Minningin lifir um dásamlegan hund sem elskaði að velta sér upp úr drullu og hlaupa í grænu grasinu. Held að Moli verði alltaf með mér á einhvern hátt, léttur á fæti og lítandi upp til mín eins og lítill verndari. Það er gott að vita af honum í þessu hlutverki þegar ég stíg út í lífið sem nú bíður, tilbúin að finna og skapa hamingju á mínum eigin forsendum.
Fuglinn er kominn aftur á loftnetið og syngur sig inn í hjartað mitt á ný: hjartað mitt sem ætlar að taka fagnandi á móti sumrinu þegar það kemur (samkvæmt veðurspánni kemur það núna rétt eftir helgi).
Og það sem ég hlakka til.