Hversdagsleiki í lok júní

Reykjavík er grá þessa dagana.

Ég stari út um gluggann á skrifstofunni í Borgartúninu, á gráa steinsteyputurnana og yfir í átt að Esjunni. Ég sé hana auðvitað ekki, heldur einungis hvítan skýjavegg sem liggur eins og leiktjald fyrir aftan húsin í Reykjavík. Það á bara einhver eftir að mála bláan himinn og lítil ský á leiktjaldið. Það væri flott.

Ég las svo skemmtilega sögu í bókinni Möndulhalli á dögunum, sem tengdist veðrinu. Mér varð hugsað til þess þegar ég áttaði mig á því að ég byrjaði enn eina bloggfærsluna á því að skrifa um veðrið. Hversu íslensk get ég eiginlega verið? (Hálf bara).

Um helgina ætla ég að fara vestur - fáir staðir í heiminum sem eru betri til að núllstilla sig heldur en Vestfirðir. Bestfirðir eins og ég hef heyrt þá kallaða.

Á meðan ég stari út um gluggann, fram hjá skjánum á vinnutölvunni, tel ég niður dagana í sumarfríið mitt. Eftir viku verð ég örugglega að farast úr eftirvæntingu, eins og barn sem bíður eftir jólum eða afmæli. Ég hlakka meira til þess að fara í sumarfrí en að eiga afmæli.

Afmælið mitt verður samt eflaust ljúft - bara að vita að eitthvað fólk hugsi til manns og óski manni til hamingju er voða indælt. Mér finnst auðvitað gaman að fá gjafir en það er kannski ekki aðal atriðið (samt smá, hættir manni nokkurn tímann að þykja vænt um gjafir?).

En sumarfríið já.

Ég hlakka til að hafa tíma til að ditta að heimilinu mínu. Sofa, hreyfa mig, núllstilla mig. Ég finn virkilega fyrir því núna að ég hef ekki tekið sumarfrí síðan 2021. Ég ætlaði svo sannarlega að nýta sumarið í fyrra til að vinna upp hluti í vinnunni og taka svo bara frí um haustið. Fríið um haustið varð aldrei nærri eins mikið frí og ég ætlaði mér. Var alltaf með hugann við vinnuna og náði ekki að slaka nógu mikið á.

Nú eru batteríin alveg að verða tóm - þ.e. gagnvart vinnunni. Einbeitingin komin í þrot. Alveg upp að því marki að mig dreymir um að fara í framkvæmdir heima hjá mér því mig langar bara að gera eitthvað með höndunum, en ekki hausnum. Baka jafnvel eða klóra puttunum í gegnum moldina í garðinum. Ég hef líka staðið sjálfa mig að því að gleyma mér við að teikna við skrifborðið.

Gleyma mér við að dagdreyma.

Gleyma mér alveg.

Komin eitthvert langt á flug, í huganum.