D-á-s-a-m-l-e-g-t

Þegar ég fletti orðinu dásamlegt upp í orðabókinni Snöru fæ ég upp færslurnar hér að ofan.

Þessi helgi var alveg d-á-s-a-m-l-e-g.

Ég var á Akureyri og Dalvík um helgina. Sólin, fjöllin, firðirnir - léku við hvern sinn fingur. Og léku við mig. Þvílík forréttindi og frelsi að geta skellt sér með stuttum fyrirvara og eiga í hús að venda og hafa fólk sem vill hitta mann. Ég borðaði bláberjaskyrís og hitti kýr. Fór í jólahúsið og keypti mér karamellur (hvaða rugl er það, að ég hafi aldrei smakkað karamellur úr jólahúsinu áður?), ég fékk smá grasgrænku á skóna mína og hitti ímyndaða blettatígra í Kjarnaskógi. Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil. Ég flaug bara norður í land og endaði við varðeld í Svarfaðardal í gærkvöldi. Ég hló af mér afturendann og átti innihaldsrík samtöl við fólk sem mér þykir ótrúlega vænt um. Líf, ertu að grínast? Ég held ég sé varla komin niður úr háloftunum því ég er enn að melta að þetta hafi allt gerst.

Það er dásamlegt að vera komin heim, segir orðabókin. En hvar er svo sem heima? Hamingjan er þar sem hjartað blundar (sagði Auðunn á messenger). Heima er sennilega þar líka. Það er dásamlegt að fara að heiman, njóta lífsins - og koma aftur heim. ÁNÆGJA.

Dásamleg tilfinning. Kanntu vel við hana? Mér finnst hún alveg dásamleg.

Ekkert af þessu útskýrir samt almennilega hvað dásamlegt þýðir. DÁLÆTI. Er það samt? VIÐBÚNAÐUR? Það finnst mér skrýtið.

ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

Er orðabókin ekki bara að ruglast eitthvað hér? Af hverju fer dásamlegt að snúast um veðrið. Ekki það, ég er mikill aðdáandi dásamlegs veðurs. Ég vildi bara fá einhverja haldbæra skýringu á því hvað dásamlegt þýðir eiginlega. Hverjar eru orðsifjar dásamlegs?

Innskot sögumanns: Skjótt skipast veður í lofti.
Miriam hafði flett upp vitlausu orði í orðabókinni.

Ég get svo svarið það. Ég hefði átt að skrifa dásamlegur en ekki dásamlegt til að fá almennilega færslu um þetta orð. Verst að ég er búin að eyða svo miklum tíma í þetta að ég er orðin svöng og ég er enn vakandi. Ég sem ætlaði að fara að sofa klukkan 22. Meðal samheita orðsins dásamlegur eru eftirfarandi orð:

  1. Unaðslegur

  2. Guðdómlegur

  3. Heillandi

  4. Sæluríkur

  5. Töfrandi

  6. Hrífandi

  7. Þokkafullur

  8. Undursamlegur

  9. Yndislegur

  10. Sætur

og listinn heldur áfram. Mikið óskaplega var þetta góð helgi.
D-á-s-a-m-l-e-g, alveg hreint út sagt ljóðræn.