Nóttin

Það er miklu meiri þögn um miðjar nætur en ég er vön. Það versta við að vera andvaka er að heyra þegar bílarnir vakna. Þá er svo lítið eftir af nóttinni. Nóttin er svo björt þessa dagana að ég veit ekki hvernig ég kem til með að sofa í sumar.

Samt eru sumarnætur uppáhalds næturnar mínar. Það er eitthvað annað orkustig í gangi þá. Kyrrðin, miðnætursólin, lyktin af gróðrinum. Sannarlega mitt happy place.

Ég reyndi að fara þangað í huganum áðan. Það var eitthvað að trufla mig. Kvíðinn er búinn að magnast upp innra með mér síðasta sólarhringinn. Hvort það sé vegna þess að ég er þreytt sem ég næ ekki að bægja honum frá þessa nóttina. Eitthvað er það. Þarf bara að muna að ég er sjálf mitt eigið akkeri.

Hamingjustaðurinn er huglægur. Ég get tekið hann með mér hvert sem ég fer. Öllum áskorunum hljóta að fylgja einhverjar lausnir.

Stundum finnst mér tilveran vera svo galin. Hugsanirnar mínar líka. Næstu tvær vikur verða í meira lagi áhugaverðar á mínum ferli - samt er ég einhvern veginn föst í fjarlægri framtíð með áhyggjur af einhverju sem ég get ekki vitað í dag hvernig verður. Í hvert skipti sem ég reyni að hlakka til einhvers kemur þessi blessaða skynsemisrödd og minnir mig nú á að vextirnir á láninu mínu eigi eftir að losna og þá verður allt svo dýrt, hvað ætlarðu að gera þá, einstæðingurinn þinn?

Frekar en að ég geti hugsað bara. Ah íslenskar sumarnætur framundan. Ah ég er að fara til Spánar af því að fólki fannst fyrirlesturinn minn svo áhugaverður. Og ég er að fara til Danmerkur af því að ég var beðin um að hjálpa til á dönskum vinnustað svipuðum mínum.

Hvaða Miriam er þetta eiginlega? Stundum finnst mér hún ekki vera ég.

Kannski er kvíðinn minn bara mitt innra barn sem þarf einhverja huggun. Þarf að knúsa mig og segja að það verði allt í lagi. Þú ert í alvöru rosa klár. Ekki skammast eða pirrast á kvíðanum, vera foreldrið sem ég hefði kannski þurft. Skrýtið hvað þetta fer allt í hringi.

Hamingjustaður. Nú ætla ég þangað. Þögn. Sumarnótt. Að liggja með sumrinu og horfa í augu þess. Hverjum er ekki sama þótt það sé bjart úti og það haldi fyrir mér vöku, ef sumarið verður hér.