Sætar döðlur

Formáli

 

Ég var á tjaldsvæði við Heklurætur um Verslunarmannahelgina þar sem sjónvarpi hafði verið stillt upp til að horfa á beina útsendingu úr brekkusöngnum á Þjóðhátíð. Eftir útsendinguna var sýnt frá tónleikum til heiðurs hljómsveitinni Bee Gees og í kjölfarið spratt þessi saga fram í huga mér og neitaði að víkja fyrr en hún var komin á pappír.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tragedy

 

Grannar hendurnar snertu mjúkt efnið í náttkjólnum. Tíran frá lampanum skall á fölbláu silkinu svo glitti í fallegt munstrið. Þennan kjól hafði hún átt lengi og furðaði hún sig oft á því hvernig hann tórði eftir öll þessi ár. Ekki nóg með að ástandið á honum væri merkilega gott, þá hafði engu munað að hann væri einungis enn ein minningin úr fortíð hennar. Því hún hafði yfirgefið heimili sitt í flýti. Ein ferðataska, kápa og skilríki. Kjóllinn hafði legið á stól í stofunni, þar sem hún hafði lagt hann frá sér eftir sturtuferð morgunsins, þá síðustu í því lífi. Þó hún lifði vissulega enn, þá hafði eitthvað innra með henni dáið þann dag. Af einhverri ástæðu greip hún kjólinn á leiðinni út og tróð honum með naumindum í stórann kápuvasann. Hún renndi augunum frá efninu og yfir á hendur sér. Blettótt og óslétt húðin hryggði hana, því þrátt fyrir fínleikann sem hún bjó enn yfir, gáfu þær aldurinn til kynna. Kjóllinn, og hún sjálf, höfðu farið hálfan hring um hnöttinn. Þeim hafði verið gert að yfirgefa heimilið, landið, og hverfa til nýrra heimkynna þar sem þeim yrði komið fyrir, með sínum líkum. Hún entist þar í nokkur ár. Tungumálið lærði hún aldrei almennilega og henni blöskraði viðhorfið gagnvart þeim sem hún hafði alltaf talið meðbræður sína. Á endanum flutti hún til vesturstrandar Bandaríkjanna, eins langt frá fortíðinni og hún gat hugsað sér. Og í nokkra áratugi gat hún gleymt henni. Og það sem mikilvægara var, gleymt honum. Það var svo eitt sumarkvöldið sem hún sat á svölunum að lag barst henni til eyrna. Holskefla minninga skók hana og tárin streymdu fram, en þó ekkalaus, eins og fossar gleði og sorgar sem höfðu safnað vatni í áratugi.  


 

Það hafði aldrei hvarflað að henni að breyta nafninu þegar hún flutti. Jafnvel þó það gæfi til kynna uppruna sem hún hafði kvatt mörgum árum fyrr, þá gat hún ekki hugsað sér að enskugera nafnið og verða allt í einu önnur manneskja. Hún bar þrátt fyrir allt enn merki sem landið hafði skilið eftir. 

Ör á upphandlegg, eftir fall af reiðhjóli við höll barónsins. Flekki sem höfðu fylgt henni síðan í fæðingu. Skurður á enni eftir misheppnaða klifurferð upp í tré í garðinum hjá Vitaly Magar sýnagógunni.

 

Heimurinn var allt annar þá. 

 

Það hafði aldrei hvarflað að henni heldur að snúa til baka. Hún þekkti einhverja sem höfðu farið en vonbrigðin leyndu sér ekki. Þó það væri tiltölulega öruggt þá mátti ekki ýfa sum sár. Foreldrar hennar höfðu alltaf lagt áherslu á það.

 

Æskan hafði verið nokkuð áhyggjulaus. Einstaka sinnum heyrðust loftvarnarlúðrar í hennar frumbarnæsku, en varnarlúðrarnir glumdu svo sannarlega ekki í neinum háloftum í undirbúningi hörmunganna.

 

 

 

 

 

 

 

It‘s tragedy

 

 

 

                                                                                                                                                       

 

                                                 Hörmungarnar.

 

Hans persónulegu hörmungar ómuðu í laginu Tragedy með Bee Gees. Honum þótti það stundum hlægilegt. Reyndar voru aðeins einar viðurkenndar hörmungar sem skiptu máli og þær höfðu helst yfir þjóð hans árið 1948. 

 

                                                                                                  „Naqba“

 

Orðið sönglaði dimmilega í munni hans. Staðnæmdist í kokinu og féll svo fram fyrir sig og út fyrir varirnar. Þó ótrúlegt hafi mátt virðast á þeim tíma, þá ríghélt fjölskylda hans í landskika sinn af svo miklu afli, eins og móðir í hendur barn síns frammi fyrir byssum og skriðdrekum, að engan hefði undrað ef þau hefðu horfið af yfirborði jarðar þá og þegar. En það gerðu þau ekki. Húsin allt í kring molnuðu í tóminu, móðir hans jafnaði sig aldrei á horfnum vinum og þöglum götum, og hann reyndi að leiða þetta hjá sér. Hlægilegur? Kannski. Á meðan ólífutrén lifðu flutu þau áfram í stöðugum sársauka aðstæðna sinna. En svo ákvað einhver, einhvers staðar, að veita vatnsuppsrettu þeirra annað. Hann mótmælti. Aðrir voru skotnir. Ólífutréð endaði lífdaga sína, rifið burt með rótum úr holdi Palestínu. Lífið þaut áfram og lallaði ofurhægt. Draumar voru einskis virði í fangelsi heimilisins og eftir langt þóf áskotnaðist honum leyfi til vinnu í Yaffa. Landakortin sýndu ekki lengur þorpið hans og grafarstaður vina og vandamanna var þá kominn undir hraðbraut. Hvert fórstu móðir, þú sem brostir svo blítt? Hann strauk henni um vangann þegar hann fór, en hún var hætt að brosa. Hún andvarpaði, bað guð um að blessa hann, af kurteisi og gömlum vana. Þau hittust síðarmeir bara í draumum hans. Hún var horfin úr tilverunni þegar húsið var jafnað við jörðu og glerkúlusafnið hans hvarf í undirstöður nýrrar byggðar.

 

Þegar öllu var á botninn hvolft þá eiga allar manneskjur samt sínar persónulegu hörmungar, og sína persónulegu gleði. Þannig leit hann á það. Kannski var tilvera hans þyrnum stráð þrautaganga en þess á milli leyndist hamingjan, eins og sætar döðlur. Þegar hann var fluttur til Yaffa átti hann fjölmörg augnablik þar sem hann gleymdi uppruna sínum og fékk að vera manneskja. Þó ekki nema í sekúndubrot. Hann flutti ávexti á milli staða og sá meira af heiminum en hann hafði getað gert sér í hugarlund. Þó heimurinn væri aðeins ein borg.

 

Hörmungar lífs hans tengdust appelsínum og dansgólfi. Lyktin og minningarnar gátu fært hann svo nálægt atburðinum að hann fann næstum snertingu hennar.

 

Hann hegðaði sér vel og kom sér stundum yfir til Tel Aviv. Þagði, lét lítið fyrir sér fara og reyndi að þurrka stingandi augliti hermannana úr huganum. Sjöunda áratugnum var senn að ljúka og það var vor í lofti. Hversu oft velti hann fyrir sér að snúa aftur heim, úr þessari fölsku hamingju – ef hamingju mátti kalla? Heima var ekki til, það var að handan, það var forboðið, ógeðslegt, bannað. Skammarlegt. En hann var einn og hann vildi fara heim.

 

 

Goin' home

I just can't make it all alone

 

 

Nauðungaflutningar

 

Foreldrar hennar voru í meiri afneitun en nágrannarnir. Eliya og André Haroun voru fædd í Cairo. Foreldrar þeirra fæddust í Cairo. Börnin líka. Þau þekktu ekkert annað. Fallegar göturnar í borg sólarinnar höfðu borið þau á örmum sér úr barnæsku. Heliopolis. Nafnið var draumkennt og lífið þar líka. Þau stunduðu viðskipti, mismunuðu engum og nú átti að bola þeim burt. Margir höfðu farið í skjóli nætur og þurft að skilja allt eftir. Þau vildu helst vera um kyrrt.

 

Staðfestan í að vera um kyrrt gerði það að verkum að þau voru ekki undirbúin þegar múgurinn kom, barði á dyr og æptu að gyðingunum að hypja sig burt. Æsingurinn var slíkur að í ofboðinu urðu flestir persónulegir munir eftir, þó að töskurnar væru tilbúnar í stofunni.

 

Vildu þau bjarga afkomu dóttur sinnar þá skyldu þau taka við þessum reisupassa, sem leyfði brottför en enga heimkomu og kveðja landið fyrir fullt og allt. Þau voru ekki lengur hluti af heildinni og nágrannarnir litu undan, þögðu. Þögn þeirra skarst eins og hnífur milli herðablaða.

 

Umm al dunya, móðir heimsins, grét þöglum tárum við brottför þeirra. Líkt og margir sem yfirgáfu hana litu þau til baka brostnum hjörtum. Gullöld egypskrar nútímamenningar fylgdi fótsporum þeirra í aðrar heimsálfur.

 

Þau komu sér ágætlega fyrir á nýjum stað, í fyrirheitnu landi sem var þeim öruggt. Þrátt fyrir söknuðinn leið foreldrum hennar vel, en hún leitaði að einhverju sem hún fann ekki. Þau vildu lítið rifja upp úr fortíðinni og voru fljót að temja sér hugsunarhátt nýrrar fósturjarðar.

Tungumálið var ólíkt, hún skildi það, sem var praktískt, en hún lærði það ekki vel. Hún gat ekki elskað á öðru máli. Tilfinningar festust eins og kökkur í hálsi sem einungis losnaði um á hljómfögru móðurmálinu. Í óþökk foreldra sinna og nágranna sótti hún í félagsskap óvinarins.

 

Hún réði sig til vinnu á kaffihúsi í Yaffa og stundaði næturlífið til að gleyma. Ásóknin í gleymskuna skapaði síðar minningar sem íþyngdust með tímanum. Sérstaklega minningarnar um hann.

 

 

 

When the feeling's gone and you can't go on

It's tragedy

When the morning cries and you don't know why

It's hard to bear

With no-one to love you you're

Goin' nowhere

 

 

 

 

 

 

         حب

 

 

 

 

Ást þeirra og endalok hennar náðu hámarki þegar hann greip í hönd hennar úti á götu og bað hana um að gerast sín. Öll augnaráðin sem fylgdu og allar sögusagnirnar sem gætu spurst út. Hún reif höndina til baka og hvæsti á hann.

 

Hann vissi vel að hún hafði þjóðina, herinn og yfirvaldið sem vökult auga yfir sér og að ást þeirra gæti aldrei verið samþykkt. Á tilverustað þeirra var hún hættuleg. Sál hans brotnaði í smáeindir þegar hún hélt áfram að hraða sér frá honum. Hún hraðaði sér frá honum til að vernda hann.

 

                                    Og sjálfa sig.

 

 

 

When you lose control and you got no soul

It's tragedy

When the morning cries and you don't know why

It's hard to bear

With no-one beside you you're

Goin' nowhere

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Appelsínuilmur

 

Á kaffihúsinu í Yaffa voru bornar fram ferskar appelsínur, meðal annars. Hans hlutverk var að flytja þær þangað og halda svo áfram. En á þessu tiltekna kaffihúsi, sem nú hefur horfið í völundarhús tímans, var sólskin sem yljaði hjarta hans. Sólskin sem læknaði heimþránna í ekkert.

 

Eins og ljósmyndir af brostnum draumum og ótímabærum andlátum geta kallað fram tár, þá getur bros einnar manneskju þurrkað út örvæntingu og depurð. Fyrst um sinn reyndi hann því að vera hægfara, raðaði appelsínunum vandlega og dró fram öll mögulegu rök til að ræða við hana. Til að byrja með leit hún undan.

 

Í hennar huga var Samir Jabra forvitnilegur. Ekkert nema það. Hún hafði þó á tilfinningunni að hann ætti meira sameiginlegt með henni en aðrir sem hún umgengst þá.

 

Hún, eins og gullið mangó á heitum sumardegi, eins og stjarna úr egypskum kvikmyndum og hann þakkaði guði. Einn daginn komst hann að því að hún talaði eins og þær líka. Þá naut hún þess að ræða við hann, tungumálið féll eins og vorgola um vanga hennar og hún fann sjálfa sig aftur. Sjálfið sem hafði orðið eftir í Cairo. Lily Haroun var þokkafull og gáfuð, framandi en samt skilningsríkari á aðstæðum hans en þeir fáu kvenmenn sem hann hafði rætt við í Jaffa. 

 

Þau hittust ekki oft utan við kaffihúsið, en stóðu stundum saman í þögn í portinu fyrir aftan. Hann gaf henni eld, hún reykti til að lengja samverustundina. Með tímanum heyrði hann brotabrot úr sögu hennar, honum nægði að kinka kolli skilningsríkur til að hún áttaði sig á að í þessu landi, sem tók henni svo vel, hafði hann flúið heimili sitt. Líkt og hún frá Cairo.

 

Íbúðin hennar, persónulegir munir, jafnvel fötin, voru nú í hendur einhverra nýrra íbúa. Persónulegir munir hans voru sennilega undir yfirborði jarðar, á einskismannslandi. Ósnertanleg hvoru tveggja.

 

Hann hafði ekki tölu á þeim nóttum sem hann lá og hugsaði um hana. En þær voru nógu margar til að hún vissi innst inni að tilfinningar þeirra voru endurgoldnar.

 

 

 

Here I lie

In a lost and lonely part of town

Held in time

In a world of tears I slowly drown

Goin'home

I just can't make it all alone

I really should be holding you

Holding you

Loving you loving you

 

 

 

 

 

 

 

Andvökunótt

        

 

Hörmungarnar hans höfðu leitt hann á þennan stað. Öll atvik lífs hans höfðu undirbúið hann fyrir þetta tímabundna dansgólf. Hann lokaði augunum og ímyndaði sér frelsi. Frelsi til að ganga út og fara heim. En heima var í þúsund molum af brotinni steinsteypu og í algleymingi dansaði hann ólöglega í Tel Aviv.

 

Hörmungarnar hennar vöktu heimþrá. Heimþrá sem nýtt land svalaði sjaldan, stundum, ekki oft. Eða kannski var hún bara ekki opin fyrir því. Hún var óvanaleg í vinskap sínum og forvitni við alla. Kannski var það barnslegt sakleysi hennar. En í myrkrinu, á dansgólfinu, voru þau öll jöfn. Í hávaðanum heyrðist enginn uppruni.

 

Það var þá sem líkamar þeirra mættust og rafmagnað andrúmsloftið náði hámarki í augliti þeirra. Hún leit niður en strax aftur upp og mætti brúnum augum hans. Djúpur andadráttur hans hikaði, en um leið og þau snertust slaknaði á þeim báðum. Lagið umvafði þau og háir tónarnir komu í veg fyrir að ólík samfélög þeirra gátu stöðvað dansinn.

 

Þeirra eini dans og framtíð sem aldrei varð.

 

 

Night and day

There's a burning down inside of me

Burning love

With a yearning that won't let me be

Down I go

And I just can't take it all alone

I really should be holding you

Holding you

Loving you, loving you

 

 

 

 

 

 

 

Endalok

 

 

Mörgum árum seinna var hann sjálfur búsettur í Egyptalandi. Hann reyndi að gleyma þeim leiðum sem komu honum þangað og þær verða ekki nefndar hér.

 

Stuttu eftir samstuð þeirra á götunni hætti hún að mæta á kaffihúsið og sást í rauninni ekki aftur þar. Appelsínuilmurinn fölnaði og hann flosnaði upp úr starfinu. Hún flutti til Bandaríkjanna, en hafði ekki kjark til að láta hann vita. Hún fann loksins frið og ró á vesturströndinni og bjó þar ein alla tíð síðan.

 

Hann vissi aldrei hvað hafði orðið af henni.

Í stað þess ímyndaði hann sér aðra veröld, þar sem hann hefði á palestínsku vegabréfi ferðast til Egyptalands í stað þess að tóra þar hálf ólöglega. Þar hefði hún líklegast verið búsett enn. Kannski hefði hann hitt hana á kaffihúsi í Korba. Kannski væri hann þá vel stæður ólífuframleiðandi á búgarði föður síns í fallega þorpinu sem var.

 

Stundum gekk hann fram hjá niðurníddri sýnagógunni Vitaly Magar í Heliopolis og ímyndaði sér appelsínukeiminn sem hann tengdi við hana. Í huga hans skiptu trúarbrögðin ekki höfuðmáli. Hans mat var að þau væru gerð til að leiða mannfólkið áfram en ekki að stía því í sundur. En það var einmitt það sem þau höfðu gert.

 

Kannski hefði hún tekið skyndiákvörðun að snúa til baka þangað einn daginn. Eftir að hafa heyrt lag sem minnti hana á æskuna keypti hún flugmiða og var allt í einu komin. Í fyrsta sinn síðan þau voru rekin burt. Starfsmenn landamæraeftirlitsins buðu hana velkomna á ókunnu vegabréfi og hún hefur andað léttar. Svo kæmi hún kannski í leigubílinn hans og hann myndi þekkja hana á augabragði.

 

Í hvaða vídd var þessi tilvera? Hún var horfin úr aftursætinu og út í mannþröngina. Hann stökk úr bílnum, ráfaði í kringum hann og baðaði út höndum. Öll þessi andlit runnu saman í eitt og hann gat svarið að þetta hafði verið hún. Þetta var hún. Hann fann yfirþyrmandi appelsínukeim og vissi ekki lengur hvað sneri upp né niður.

 

Bíllinn var enn í gangi og kasettan spilaði gamalkunnugt lag.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tragedy

When the feeling's gone and you can't go on

It's tragedy

When the morning cries and you don't know why

It's hard to bear

With no one to love you, you're

Goin' nowhere

Tragedy

When you lose control and you got no soul

It's tragedy

When the morning cries and you don't know why

It's hard to bear

With no one beside you, you're

Goin' nowhere

 

 

Tragedy...

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftirmáli

 

Á blaðsíðu 8 í bókinni The Poetics of Ancient and Classical Arabic Literature: Orientology eftir Esad Durakovic, stendur:

 

[...] in Arabic-Islamic culture, time is understood as cyclical or circular (al-zaman al-da‘iri), composed of individual moments. [...]  This understanding is strongly differentiated from the understanding of time in Judeo-Christian culture, which is linear [...]. These different interpretations of time establish different relations towards it, be it historical time or the temporal orientation of individuals within it.

 

 

Tíminn er hringrás. En það er eins og allir standi alltaf á öndinni, bíðandi eftir að tíminn líði að ákveðnum endalokum til að hægt sé að leysa úr vandamálum sem snerta venjulegt fólk.

Hvenær er tími þeirra sem elska þvert á pólitískar línur og mannréttindabrot kominn aftur að upphafspunkti, svo við getum læknað sár okkar allra?