Rauðir sokkar

Stundum er lífið eins og að týna einum rauðum sokk sem manni þykir vænt um. Af hverju passaði ég ekki betur upp á þennan sokk? Af hverju kíkti ég ekki betur undir rúmið þegar ég fór af hótelinu, sleppti því að pakka niður í flýti eða var almennt bara skynsamari? Af hverju asnaðist ég til að fara í þessa ferð þótt ég væri slöpp og þreytt og hefði frekar viljað vera heima? Af hverju gat ég ekki bara slakað á eða bara verið önnur manneskja sem er ekki að missa sig yfir einhverjum sokk? Þetta var hlýr og góður sokkur, pabbi átti þennan sokk. Það var gott að fara í þessa sokka þegar það var kalt úti. Og nú er ég búin að týna einum sokk. Ef ég væri ekki svona ömurleg þá hefði ég aldrei týnt þessum sokk til að byrja með, aldrei verið í þessum aðstæðum kannski, eða bara verið fínni og betri - átt nýrri sokka og ekki þurft að nota rauða sokka af látnum föður mínum til að ylja mér á tónlistarhátíð á Ísafirði. Svo margt sem ég hefði getað gert öðruvísi og ég ætti enn þennan sokk eða væri bara alfarið sama um að hafa týnt sokk. Ætti bara aðra sokka.

Svo ofan á þetta leggst öll orkan sem fer í að halda sönsum og sleppa sjálfshatri og niðurrifi fyrir að týna einum helvítis sokk. Hvers vegna er hausinn á mér ekki bara í betra standi þannig að einn týndur sokkur slái mig ekki svona út af laginu. Að þurfa að rifja upp orð sálfræðings yfir aumum ullarsokk hlýtur að sýna hvað ég hef mikla veimiltítu að geyma.

Ég hef þó eitthvað lært á þessu sálfræðispjalli öllu saman, því ég komst nánast klakklaust út úr þessu. Var svekkt yfir sokknum án þess að steypast í hyldýpið. Jákvæða, innra sjálfið ákvað að setja þennan sem eftir stóð til hliðar (Kannski þyrfti ég einhvern tímann einn sokk, hver veit?), geyma hann.

Svo mörgum dögum seinna ætla ég að klæða mig í íþróttaleggings sem ég notaði síðast á Ísafirði og finn stakan rauðan sokk inni í annarri skálminni og fatta að ég gerði sennilega úlfalda úr mýflugu, dæmdi sjálfa mig fyrir sokk og svo var hann hér allan tímann. Aldrei lengra frá mér en í 10 m radíus (nema þegar ég fór út úr húsi). Sjálfshaturssokkurinn sem týndist ekki, í rauninni ekki sokknum sjálfum um að kenna heldur hugsanavillu hjá mér.

Mér verður þá allavega ekki kalt á tánum í vorhretinu.

(Sokkarnir á myndinni eru af internetinu. Ég veit ekki hvaða sokkar þetta eru. Virka kósí).