Búkarest-Osló

Mér er farið að finnast það mjög áhugavert að stúdera hvernig hugsanirnar mínar fara upp og niður eftir því hvort batteríin mín séu vel hlaðin eða ekki. Ég hálf-sit í einbreiðu hótelrúmi í Osló, herbergið er á annarri hæð og ég heyri því mikið inn um gluggann. Það er samt ekkert mikið um að vera úti, svo mér finnst þetta trufla mig takmarkað. Hótelið er statt frekar miðsvæðis í Osló og það er mjög hátt til lofts hér inni. Ég hugsa að þetta hafi verið gamalt íbúðarhús og velti fyrir mér hvernig hér hafi verið umhorfs áður en þetta varð hótel. Svo er þetta kannski bara nýbygging sem fellur mjög vel inn í gamla götumynd. Gólfið inni á baði er ótrúlega heitt. Ég er að spá í að leggjast á það í smá stund (þ.e. ef ég kemst fyrir, baðherbergið er svo lítið), til að slaka aðeins á í bakinu.

Ég lenti í aftanákeyrslu í Búkarest - í leigubíl á leiðinni á flugvöllinn. Bílstjórinn var óheppinn, hann hemlaði og annar bíll endaði á honum. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að það væri best fyrir mig að fá afrit af tjónaskýrslunni, þ.e. jafnvel bara mynd, svo ég gæti haft það með fyrir tryggingarnar heima. Bæði bílstjórinn og sú sem keyrði á hann reyndu að sannfæra mig um að ég þyrfti þess ekki og að ef ég væri ekki farin að finna til á þessum tímapunkti þá yrði allt í lagi með mig. Það er náttúrulega bara bull og ég vona að öll sem lesa mögulega þessa færslu viti að það getur tekið nokkra daga fyrir meiðsl að koma fram eftir svona árekstra. Það bætti ekki álit mitt á þeim að hún sagðist vinna á spítala. Ég held hún hafi bara verið að reyna að hugga mig.

Ævintýrin enduðu ekki þarna, því ég endaði á að þurfa að leita mér læknishjálpar seint um kvöld í Osló og fékk smá smjörþef af heilbrigðiskerfinu þegar ég skaust á “Legevakten” og fékk staðfest að ég væri ekki með heilahristing þótt ég hefði fundið e-ð blóðbragð í munninum. Það er ekki einkenni svoleiðis og mér til varnar (því ég gúgglaði það) þá var það norskur heilbrigðisstarfsmaður sem sagði mér í síma að hún vildi frekar láta kíkja á mig en að ég færi að sofa. Sem meikar alveg sens.

En nú er ég semsagt uppgefin í hótelrúmi í Osló. Eftir heilan ráðstefnudag af innblæstri sem mér fannst hafa liðið alltof hratt. Finnst fólk oft skipuleggja ráðstefnur án þess að taka inn í myndina að það er fólk sem sækir ráðstefnurnar, ekki bara einhver dagskrá sem þarf að líða.

Ég hlakka til að leggjast á koddann og sofa, sofa út og gera ekkert á morgun. Bókstaflega ekkert.