Augu

Það er eitthvað að öðru auganu mínu. Það er víst einhver grár blettur á hornhimnunni sem er mögulega að valda breyttri sjón á hægra auga. Rak augun í augndropana sem ég reyndi að nota samviskusamlega í þrjá heila mánuði (daglega) í þeirri von að þessi blettur myndi hverfa og sjónin lagast. Það gerðist ekki og augnlæknirinn alveg bofs, bókaði mig í sjónmælingu og bað mig um að fylgjast með hvort sjónin myndi versna. Þegar ég nota bæði augun háir þetta mér alls ekki en kemur í ljós um leið og ég reyni að nota bara hægra augað. Mér líður aldagamalli yfir þessu.

Ég er líka eitthvað aum í liðamótunum á vísifingri hægri handar. Einungis vísifingrinum. Þetta er vafalaust ellimerki líka, þetta er puttinn sem er á tölvumúsinni í vinnunni og hann fær svei mér að hvíla sig í sumar. Reyni að halda honum slökum.

Svo er ég með blett á hægra lærinu sem húðlæknirinn sagði að væri bara fullur af æðum. Hann hafði engar áhyggjur af honum (ég hafði áhyggjur). Ég treysti því en fylgist alltaf með þessum blett.

Hægri mjöðmin er líka eitthvað stíf. Af því að öll hægri hlið líkamans er eitthvað á skjön.

Er þetta bara af því að ég er örvhent? Vinstri hliðin í toppstandi og hægri bara orðin eitthvað léleg. Bara svona eins og íslensk pólitík (frá mínum bæjardyrum séð). Okei toppstandi er kannski ofmat, en hún mætti amk fá séns.

Þegar ég var lítil þá fannst mér græn augu alltaf ótrúlega flott. Mér fannst samt bara ekkert fólk vera með græn augu í alvörunni, svo ég fékk sjaldan að horfa í slík. Ætli ég hafi ekki ímyndað mér einhver eiturgræn augu, kannski eins og á einhverjum Disney karakterum. (Græn augu eru alveg ótrúlega sjaldgæf, talið er að einungis 2% mannkyns séu með græn augu á meðan allt að 55-79% eru með brún). Augun mín voru bara brún og aldrei sungið um þau í neinum lögum, nema í laginu Brúnaljósin brúnu sem mér þótti alltaf vænt um: Ó viltu hlusta elsku litla ljúfan mín / ljóð ég kveða vil um þig / því mildu brúnaljósin brúnu þín / blíð og fögur heilla mig.

Ég horfði nýlega í einhver fallegustu augu sem ég hef ævi litið, þau voru græn eins og íslenskur mosi. Græn eins og landslagið sem segir manni, þetta er Ísland, það fer ekkert á milli mála. Þessi græni litur sem virkar ótrúlega skær í samhengi við landslagið sjálft en er samt jarðbundinn, ekkert æpandi. Nema þegar hann er það, í ákveðnu veðri virkar hann þannig.

Ég horfi út á sólarlagið út um gluggann á Sigurhæðum (herbergið sem vísar í vestur hefur fengið nýtt nafn). Ég sé út á haf og skýjahjúp yfir Snæfellsnesi. Himinninn er fjólublár, bleikur, appelsínugulur, gulur, ljósblár og blár. Mikið óskaplega er lífið fallegt. Ég er svo full af ást að mig langar að deila því með öllum. Eins og ástin sé blómvöndur sem aldrei endar, reyni ég að rétta öðrum blóm og brosi. Ef allt fólk upplifði þessar ástríku tilfinningar væri heimurinn svo fallegur staður.