Sumardagurinn fyrsti
Það er kannski vel við hæfi að kveðja þennan vetur með smá skrifum. Af einhverjum ástæðum vaknaði ég eitthvað óttalega einmana í dag. Það er erfitt að reyna að skilja allt sem gekk á þennan vetur, mér finnst erfitt að koma því öllu í orð sjálfri. Hjálpaði svo ekki ofan í allt að missa minn besta ferfætta vin, sem ávallt kom skapinu í lag með hoppi og skoppi.
Kannski er það þess vegna sem ég er svo þakklát fyrir að nú sé loksins komið sumar. Semsagt, eitthvað táknrænt. Að þessi vetur, erfiðasti vetur lífs míns sennilega, sé loksins á enda. Fyrsta verk sumarsins verður svo að skrifa undir afsalspappíra og klára að eignast íbúðina mína. En sumarið er líka táknrænt fyrir allskonar nýjungar og ég er ótrúlega bjartsýn að þetta sumar verði bara hreint út sagt fínt. Örugglega meira en bara fínt.
Ég viðurkenni annars að ég batt allt of miklar vonir við veðurspánna sem sagði að í dag yrði glampandi sól, en hún er víst norður í landi. Það hefði kostað mig 50 þúsund krónur að skjótast í dagsferð með flugi til að ná smá sólbaði á Akureyri, eftir á að hyggja hefði það nú samt eflaust verið þess virði. En ágætt að spara þennan pening og nýta hann í eitthvað gáfulegt síðar.
Sólin er að vísu aðeins farin að gægjast úr skýjunum þegar þetta er skrifað - á meðan Rás 2 spilar hvert sólar- og sumarlagið á fætur öðru. Nýjabrumið á trjánum farið að birtast og litlir spörfuglar á vappi í garðinum. Hulda Geirsdóttir á Rás 2 var svo að setja í orð akkúrat það sem ég var að hugsa - varðandi sólina. Hún vitnaði í lagið Sumar hvern einasta dag með Mannakornum, sem var að enda við að klárast:
Ef sól er í minni og sól er í sinni,
þá er sumar hvern einasta dag.
Mikið var þetta góð áminning fyrir kjána eins og mig. Sama hvernig viðrar, þá er það sólin innra með okkur sem þarf að skína. Þótt ég sjái nú bláan himinn á milli skýjanna, þá er það nú fyrst og fremst hvernig mér líður í hjartanu sem skiptir máli. Og mér líður almennt vel, þótt sumir dagar byrji með meiri skýjahulu en aðrir.