Vopnahlé

Ég vaknaði rétt fyrir 5 núna í nótt eftir að hafa dreymt pabba. Draumurinn snerist ekki allur um hann, ég var bæði úti í París og í Húsasmiðjunni eða Garðheimum að skoða blóm. Undir lok draumsins - eða rétt áður en ég vaknaði - var ég eitthvað að brasa með honum í einhverjum ísskáp. Veit ekki hvort það hafi átt að vera heima hjá honum eða í Kambaselinu en allavega þá voru einhverjar pöddur komnar í frystinn. Við vorum að skoða allan matinn sem þar var og hann þurfti að henda slatta af honum. Ég sagðist þá geta keypt fyrir hann meiri mat og hann varð voðalega snortinn yfir því.

Ég vaknaði og fór fram úr til að bursta tennurnar, hafði gleymt því áður en ég fór að sofa. Þegar ég kom inn þá tók ég eftir hvað það stafar mikilli birtu af routernum fyrir internetið sem er staðsettur inni í svefnherbergi. Ég svaf í kolniðamyrkri í bústaðnum hjá Auðunni og þetta flöktandi ljós fór í taugarnar á mér. Ég fann þá einhvern fjölnota poka úr fríhöfninni og skellti ofan á þetta allt saman til að dempa ljósið. En skaðinn var skeður, ég var búin að stússast of mikið: glaðvöknuð.

Ég tók upp símann (mikil mistök!) og las mér til um mögulega merkingu draumsins. Það sem netið gat sagt mér var ekki mjög jákvætt og ekki til þess fallið að slökkva áhyggjur af þessu og hinu.

Þannig að ég vaknaði ekki bara og varð andvaka, heldur sakna ég pabba og fékk kvíða líka. Frábært, takk heili.

Ætla að loka augunum aðeins aftur. Á meðan ég man. Hvernig getur fólk enn réttlætt það sem Ísrael er að gera við Palestínu?

Vopnahlé strax.