Pizza Hut

Æskuvinkona mín minnti mig á það um daginn að þegar við vorum börn fékk hún reglulega að fara með mér og fjölskyldu minni út að borða á Pizza Hut á „Sprengisandi“. Staðurinn hefur fyrir löngu lokað en núna er Grillhúsið í sama húsnæði (ef mér skjátlast ekki).

Ég var eiginlega búin að gleyma því hvað þetta var reglulegt hjá okkur. Oftar en ekki fóru foreldrar mínir með okkur á þennan stað. Mér fannst hann alltaf heillandi, því ólíkt mörgum öðrum stöðum var þetta stórt og stæðilegt (líklegast fyrrum einbýlis-) hús þar sem hægt var að sitja við glugga, á upphækkuðum palli eða á efri hæð. Þar voru margir básar og borð, líka sjónvarpssvæði og það sem best var, ísvél. Þegar keypt var barnapizza þá fylgdi með ís í eftirrétt - sem við máttum útbúa sjálfar.

Það sem mér þótti eiginlega merkilegra við þessa frásögn er að vinkona mín sagði mér að hún hafi nánast aldrei farið út að borða með sinni fjölskyldu á þessum tíma. Fyrir henni var það svakalega spennandi að fá að fara með okkur út að borða.

Ég hafði eiginlega gleymt þessum minningum sem annars voru að sjálfsögðu mjög ljúfar, vegna þess hversu hversdagslegar þær eru. Ég ræddi þetta við sálfræðinginn minn um daginn en hún benti mér einmitt á að oft taka slæmar minningar yfir - af því þær hafa miklu meiri áhrif á okkur - og venjulegu og góðu hversdagslegu minningarnar falla í skuggann. Hún bað mig um að skrifa lýsingu því hvernig þessar heimsóknir á Pizza Hut hefðu verið, svo þær myndu festast betur í mínu minni og ég gæti leitað í þær þegar mig vantaði góðar minningar að ylja mér á.

Venjuleg heimsókn á Pizza Hut fól í sér smá bið við afgreiðsluborðið, við áttum yfirleitt alltaf bókað borð. Svo þegar röðin var komin að okkur var spennandi að sjá hvaða borð við fengjum. Færum við upp? Alveg fram í sal við gluggana? Í bás við miðjuna? Mér fannst þetta alltaf spennandi - og staðurinn var yfirleitt pakkaður. Í minningunni allavega.

Ég man kannski minnst eftir pizzunum sjálfum, en fyrir manneskju með eggja- og hnetuofnæmi var það skemmtileg tilbreyting að þurfa lítið að spá í þessum ofnæmisvöldum. Ég gat bara pantað mér pizzu eins og allt annað fólk, og ekkert til að hafa áhyggjur af. Mig minnir að ég hafi nánast undantekningalaust pantað mér margaritu. Við báðar sennilega. Hvort pizzunni hafi fylgt einhverjar brauðstangir man ég ekki, en gos - og svo auðvitað ísinn. Það var alltaf skemmtilegast í heimi að skottast að ísvélinni og búa til sinn eigin ís.

Þetta var örugglega subbulegra dæmi en mig minnir. Fullt af krökkum að fikta í ísvél. En það var samt eitthvað svo gaman að fá að gera ís og setja nammi og sósur í skál.

Reyndar var það besta við þetta örugglega að fá að vera krakki í friði frá áhrifum umheimsins, gleyma sér aðeins inni í búbblunni sem Pizza Hut á Sprengisandi var - og eiga skemmtilega stund með bestu vinkonu sinni.