.

View Original

Kaup á ímynduðum blómum

„Hvert er tilefnið?” spyr afgreiðslumaðurinn í búðinni. Ég stari tómlega á hann. Tilefnið? Ég hafði nú bara ekki hugsað út í það. Ég leit á blómin og aftur á hann. „Tja já, meinar, nei ekkert sérstakt sko.” Ætli hann hafi ekki séð á mér að ég hafi orðið vandræðaleg við spurninguna, því hann bætti í flýti við að hann ætti úrval af tækifæriskortum. „Nei mér datt bara í hug að þig vantaði kort”.

Ég brosti, sagðist tæplega hafa tíma til að skrifa á kort. Eftir á að hyggja fannst mér þetta samt ekkert óvitlaus hugmynd og endaði því á að bæta handskrifuðum miða við blómin. Ekki tækifæriskort, en tilefnismiði.

Það var nefnilega ekki rétt að ekkert væri tilefnið. Ég var jú að fara að hitta þig. Engar veislur eða afmæli, tja eða hátíðir yfirhöfuð, gætu komist nálægt því tilefni. Ég var búin að hugsa um þennan dag svo lengi. Telja niður eins og barn telur niður til jóla.

Trúði því varla að þetta myndi yfirhöfuð verða að veruleika. Á sama tíma hélt þetta mér gangandi.

Þegar ég fór í búðina og ráfaði um í reiðileysi - til þess að drepa tímann - fannst mér allt í einu eins og blóm væru góð hugmynd. Í sannleika sagt veit ég ekki hvers vegna, mig langaði bara að gefa þér eitthvað. Táknræna gjöf um bið mína og eftirvæntingu.

Í alvörunni held ég þó að ekkert, nákvæmlega ekkert, geti fangað það í form eða mynd, hvað ég hlakka mikið til að sjá þig.