Dansað á borði
April 1942, París, 20. hverfi
Hún steig upp á borðið, varfærnislega en ákveðið og beygði sig þótt hún vissi að lofthæðin hefði rúm fyrir hana. Hún leit í augu móður sinnar, þar örlaði fyrir vanþóknun en hún virtist síðan muna á örskotsstundu að nú var tími til að fagna, en ekki skamma. Hún lyfti fætinum, steig hælnum niður, lyfti hinum og steig hælnum niður í takt, klappaði og þandi raddböndin með hópnum í stofunni. Skuggarnir dönsuðu upp með veggjunum og ýmist mátti heyra laglínur sungnar eða gleðihlátur berast milli þeirra sem sátu enn. Úti var rökkur, svona klassískur vordagur þegar París er í blóma en það er ekki enn bjart fram á kvöld. Kirsuberjatrén á Montmartre voru fallega bleik en hún sá þau reyndar ekki út um gluggann. Þau voru þar samt, hún vissi það. Lokaði augunum og fann lyktina. Myrkrið var líka fallegt, í myrkrinu var svo hlýtt við kertaljós og arin. Ekki bara ylurinn af eldinum, heldur andrúmsloftið. Og þarna stóð hún upp á borði og stappaði í takt, klappaði og söng. Í svörtum, hnjásíðum bómullarkjól með rauðu mynstri og liðað hárið sveiflaðist með af innlifun. Frændi hennar lék á fiðlu með miklum þokka en það var þó platan á fóninum sem átti heiðursætið þetta kvöldið. Plata sem vakti minningar um annað heimaland. Allar þessar rjóðu kynnar, þessi bros sem höfðu falið sig í áhyggjum svo lengi. Nú gátu þau gleymt því eina kvöldstund. Úti var stríð en inni var allt svo fallegt. Hún sneri sér í hring og sveif fimlega niður af borðinu og hélt dansinum áfram.