.

View Original

Kanarí

Lyktin og reykurinn úr púströrinu fylltu vit hans. Í sama andartaki gelti hundur og barn í kerru henti leikfangi á gangstéttina. Menn að flytja sófa hurfu fyrir horn og nokkrar konur, sem honum þótti ungar en voru þó komnar af sínu blómaskeiði, stóðu í hóp og stungu saman nefjum.

Það var sólríkur og hlýr febrúardagur. Ferðamennirnir, þrútnir og sólbrenndir, í stuttbuxum og með salt í hárinu, gengu nokkrum skrefum á undan honum. Ætli þeir væru ekki á leið niður að strönd. Hann láði þeim það ekki, hún var afar falleg og fjöllin í kring gerðu bæjarstæðið meira heillandi en ella. Rétt eftir að ferðamennirnir hurfu honum sjónum inn í hliðargötu, var honum litið á spegilmynd sína í bílrúðu sendiferðabíls. Þennan morguninn ætlaði hann einungis rétt að skreppa út og sækja kaffi, kannski einhverja ávexti í mýkri kantinum og brauð. Í sjálfu sér gæti hann pantað allt þetta heim, en hann þrjóskan haltraði honum niður stigann og út, til að draga úr einmanaleikanum.

Spegilmyndin sem við honum blasti hefði áður einhvern tímann valdið honum hugarangri og í örstutta stund læddist að honum samviskubit yfir að hafa ekki snyrt sig betur til. Þessa dagana leyfði hann sér að fara út úr húsi á nærbolnum, slíkt hefði aldrei hvarflað að honum áður. Nokkrir kaffiblettir voru á honum miðjum, þar sem ístran hafði gripið volga dropana og einhvern tímann hafði hann þurrkað kámugum höndunum í aðra hliðina. Í hugsunarleysi. Göngustafurinn bætti ekki heldur úr skák, því hann var merki elli og Mario hafði lengi vel sagt aldrinum stríð á hendur. Sú barátta varð erfiðari með hverju árinu sem leið.