.

View Original

Í svefnríki

Mér líður miklu betur þegar ég sef. Þá finn ég ekki fyrir bakverkjum og vöðvabólgu sem hrjá mig hverja einustu stund. Ég er verkjalaus í svefnríkinu. Ég lendi oft í einhverjum ævintýrum þar, misjafnlega gáfulegum, en ég verð sjaldan mjög hrædd. Stundum átta ég mig á því hvar ég er stödd og þá slaka ég á í miðri hringiðu ævintýranna. Mér líður líka oftast ágætlega á meðan ég er að vakna, þá man ég ekki áhyggjur gærdagsins eða kvíða dagsins í dag. Í svefnrofanum líður mér því næstbest. Ég hef alltaf sofið vel, meira að segja þegar ég hef gengið í gegnum erfiðleika hef ég getað gengið að því vísu að fá huggun í svefnríkinu. Nema síðustu ár. Ég tengi þetta við ótta og andvökunætur yfir Mola, sem var vart hugað líf. Eftir á að hyggja hefðum við átt að leyfa honum að fara, ég viðurkenni það. En ég hélt alltaf að hann myndi braggast. Elsku kúturinn minn. Eina lífveran sem hefur elskað mig skilyrðislaust, utan mömmu. Ég sakna hans.

Kannski var allt svo bærilegt síðustu ár af því að ég hafði hann og Míu á móti kvíðanum. Þau voru ákveðinn tilfinningalegur stuðningur sem ég hef ekki í dag. Dýr eru svo almennileg. Þau dæma ekki orðin manns og ef maður er góður við þau, eru þau góð á móti.

Mér líður betur þegar ég sef. Þá þarf ég ekki að takast á við það að vera ég. Mér finnst alltof erfitt að vera manneskja. Errare humanum est og ég hata það. Mér líður ágætlega á meðan ég vakna. En svo líður mér verst þegar ég er vöknuð og ég fatta að ég þarf að takast á við annan dag af því að vera ég. Ekki verkjalaus drottning í svefnríki, heldur breysk manneskja í grimmum og ógeðslegum heimi.