.

View Original

Hlýja

Það kemur fyrir að ég leyfi mér að vaka langt frameftir. Alla jafna finnst mér gott að fara að snemma að sofa en svo eru sumarkvöld um helgar sem kalla á droll langt frameftir nóttu. Í nótt er ein slík nótt. Úti er dúnalogn, fuglasöngur og tveir kettir sem kallast á. Ég er ósköp friðsæl innra með mér, sem mér finnst ákveðinn sigur því það er allt á rúi og stúi hér heima. Svona venjulega þá ýfir það upp eitthvert eirðarleysi sem ég losna ekki við fyrr en ég hef tekið til.

Ég fór sérstaka ferð fram úr rúminu til að setjast niður og skrifa. Þetta eru skrif með algjörlega ásettu ráði. Ekki skrif þar sem ég hef verið í tölvunni hvort sem er og byrjað að skrifa út í bláinn (mjög algengt) - né eru þetta skrif þar sem ég var andvaka og ákvað að skrifa til að róa hugann. Í þetta sinn lá ég uppi í rúmi og byrjaði að semja þennan texta áður en ég laumaðist fram. Ég laumaðist fram því í myrku herberginu mínu sefur kærastinn minn. Það er náttúrulega aldrei almennilegt myrkur í herberginu, bæði nær birtan að smeygja sér meðfram gardínunum og mér finnst líka alltaf vera ljós í kringum hann. Meira að segja þegar myrkrið skellur á, því það gerir það líka í sinni fólks, þá er alltaf einhver ljóstíra sem stafar frá honum. Þegar mér líður illa kveikir hann ljósin mín og ég reyni að gera slíkt hið sama fyrir hann.

Nú sefur hann ósköp vært og muldrar aðeins þegar ég renni mér fram úr rúminu. Þetta er örugglega einhver innbyggður pabbaskynjari sem foreldrar hafa, en úr því að ég er ekki lítið barn þá næ ég að lauma mér nógu fimlega fram til að hann verði einskis var (nema í svefni). Það er eitthvað sammannlegt og tært að horfa á manneskju sem maður elskar sofandi.

Ég horfi á fallegan himinninn út um gluggann og velti því fyrir mér hvort sé fallegra, himinninn eða ástin. Þessi árstími skipar sér ávallt mikinn sess í hjartanu mínu. Í fullkomnum heimi væri eilífðarsumar og miðnætursól. En ástin. Engin orð fá henni lýst, í raun.

Mér þykir svo óskaplega vænt um kærastann minn. Ég leita aftur og aftur að nýjum orðum til að lýsa þessum tilfinningum en verð að sætta mig við orðin sem ég hef notað áður.

Ég hlakka til að hitta dóttur hans eftir tvo daga og mig langar að borða með þeim ís. Ég veit ekki hvers vegna, það er eitthvað svo mikið sumar í því. Sumar og sól, í hjartanu á mér. Líkt og aldrei fyrr.