Ástarbréf
Klukkan er 00:23
Ef ég ætti að setjast niður og skrifa ástarbréf þá myndi ég skrifa um rigninguna sem fellur létt á bárujárnsþakið, plönturnar í pottunum eða hlýtt teppið á rúminu. Ástarbréfið myndi segja frá því hvernig hljóðið í rigningunni vekur öryggistilfinningu. Það er sefandi, eins og að liggja í örmum elskhuga. Hljóðið í rigningunni kveikir líka á ímyndunaraflinu, einhvern tímann langar mig að búa í litlu húsi með bárujárnsþaki og fallegum garði. Einhvern tímann í framtíðinni. Þar verða plöntur í potti, alveg nógu margar. Þess vegna segi ég frá plöntunum í ástarbréfinu. Plönturnar tákna líf, plönturnar tákna endurfæðingu. Þær vaxa og dafna þegar við setjum rækt við þær. Alveg eins og sambandið sem skiptir mestu máli. Hvað teppið varðar þá er það hlýtt og umvefur mig þegar ég þarf á því að halda. Alveg eins og þú. Þetta teppi hefur fylgt mér síðan ég man eftir mér. Alltaf hefur það verið í námunda við mig. Ég ætla að nota það áfram, líka þegar ég verð flutt í lítið ímyndunarhús með bárujárnsþaki.
Bréfið er stílað til þín. Þú lest bréfið með bros á vör. Þú lest um dropa á bárujárnsþaki, plöntur í potti og hlýtt ullarteppi á rúmi. Teppi sem þú snýrð alltaf öfugt þegar þú býrð um. Ég brosi í hvert skipti af því að allt sem minnir mig á þig vekur hjá mér gleði.
Dropar. Plöntur. Teppi. Þú.
Lífið þarf ekki að vera flókið til að vera gott.