.

View Original

Dubrovnik

Ég sit á bar á efstu hæð lúxushótels í Dubrovnik. Vanalega er hótelið ekki opið á þessum árstíma en þau tóku glöð við hópi ráðstefnugesta sem ég var hluti af. Opnuðu sérstaklega fyrir okkur. Túrisminn í Dubrovnik hefst ekki af neinu ráði fyrr en í fyrsta lagi eftir páska. Það er samt milt og fallegt veður. Samkvæmt veðurspánni átti að vera skýjað í dag. Skýin sem um ræðir eru ekki ský í mínum huga. Eins og næfurþunnar slæður hér og þar á himninum. Ekkert sem stöðvar dýrindis sólarljósið. 

Ég ætlaði að nýta tímann og halda aftur niður í gamla bæinn í dag. Skoða mig um. Gamli bærinn snýr í átt frá sólu og hótelið, sem stendur við litla vík, nýtur sólarinnar þar til hún sest í fallega blátt Adríahafið. Ég fer heim til Íslands á morgun og ég held ég hafi þurft að fylla sálina (og andlitið) af sól. Hlaða sólarrafhlöður líkamans. Mér líður mjög vel. Hárið mitt er liðað og mjúkt, litað rauðgylltum ljóma frá ömmu Nönnu. 

Ég horfði áðan á skútu sigla í makindum út fyrir víkina, framhjá klöppunum þar sem ég sat fyrir nokkrum tímum og sólaði mig. Ég hafði ætlað að stinga mér til sunds en vatnið var of kalt. Svo fannst mér steinarnir óþægilegir og ég var ekki alveg nógu kjörkuð til að taka af skarið. 

Á meðan ég drekk engiferöl með röri á þessum hótelbar hefur sama önuga konan komið tvisvar til að athuga hvort ég sé farin. Ég held ég sé nefnilega með besta sætið á svölunum. Ég sit í litlu, skjólríku útskoti með útsýni beint á haf út. Hér í útskotinu er bekkur með sessum og fallegum, röndóttum hvítum og bláum púðum. Andvarinn er mildur og sólin heldur bráðum út fyrir sjónarsviðið þar sem ég sit. 

Ég mjaka mér lengra til vinstri til að ná sólinni aðeins lengur. Ég ætla að kreista hverja einustu örðu af henni. Svo þegar hún stefnir niður í hafið þá stekk ég niður á herbergi og klæði mig betur. Þá fæ ég mér kannski göngutúr. 

Þvílík endemis forréttindi. Ég er afskaplega glöð að vera ekki hér í júlí samt. Mér skilst að hér sé ekki þverfótað fyrir fólki og óbærilega heitt. Þá er þetta hótel eflaust fullt af fólki sem þénar meira á dag en ég geri á mánuði. Ég hefði aldrei haft efni á herbergi hér, hvað þá í fjórar nætur. En þau gáfu okkur, ráðstefnugestunum, afslátt. Frekar að hafa okkur hér en bara alls ekki.

Mér verður hugsað til önugu konunnar sem áttar sig ekki á því að það er meðal annars veru minni hér að þakka að hótelbarinn er yfirleitt opinn. Þau loka aftur um helgina, þangað til túrisminn fer á fullt. 

Að sitja svona við sjóinn kveikir einhverja djúpstæða þrá í að njóta allra lífsins lystisemda. Mig langar að prófa að vera hér í rólegheitunum í gömlu húsi í nokkra daga, borða sjávarfang og ávexti og fá mér göngutúr á morgnana. Mig langar að njóta ásta og njóta náttúrunnar og bæði í einu. Hér á þessu augnabliki á þessum fallega stað ríkir friður. Það er erfitt að ímynda sér að hér hafi einhvern tímann verið stríðsátök. En það gerðist meira að segja á mínum líftíma (ég var að vísu bara ungabarn) að gamli bærinn var sprengdur og skotið á hann. Við sáum ummerkin í gær. 

Svona er þetta. Stríð og friður. Ég fer í huganum yfir Miðjarðarhafið og reyni að stíga niður á jörðina þar. Sálin kemst ekki alla leið, hún skynjar óttann en getur ekki skilið það sem á sér stað. Hún flögrar í huga mér en samt líka einhvers staðar yfir hafinu. Langar að hjálpa. 

Rétt í þessu flugu tveir fuglar fram hjá, komu aftan frá og stefndu beint út á haf. Þeir hurfu inn í sólina. 

Hversu margir óska þess núna að þeir gætu horfið inn í sólina, í fylgd með einhverjum sem skipta þau máli. Fljúga út í sólarlagið og yfir sjóndeildarhringinn. Fara bara úr aðstæðunum, hverfa eitthvert annað. Það er nefnilega sama sólin sem við sjáum öll. Gerir það okkur ekki öll jöfn á einhvern hátt. 

Ég myndi vilja trúa því, þótt það sé ekki þannig. Þannig séð.