.

View Original

Heimkoma

Ég er komin heim eftir heldur langa dvöl fyrir utan landsteinana. Ég elska landið mitt og taugarnar til Íslands eru eitthvað það sterkasta í mér. Það er sennilega þess vegna sem mér finnst það alltaf ótrúlega erfitt þegar ég upplifi einhvern veginn að ég tilheyri ekki hér, eða að tilvist mín sé í einhverri varnarstöðu alltaf hreint. Ég verð því að viðurkenna að það var ákveðinn léttir að dveljast þennan tíma í löndum kringum Miðjarðarhafið. Fyrst á Ítalíu, svo Grikklandi og að lokum í Egyptalandi. Ég tel svo sem ekki með vikulöngu vinnuferðina til Tékklands sem var þarna inni á milli, þótt hún hafi verið notaleg. Í Miðjarðarhafslöndunum þremur kom fólk fram við mig eins og heimamanneskju.

Ég hef lært skrafl í ítölsku og undirbjó dvölina í Grikklandi með nokkurra vikna Duolingo æfingum. Það var ótrúlega þægilegt að finnast fólk ekki mæna á mig í tíma og ótíma með augnaráði þess sem reynir að staðsetja hvaðan maður komi nú eiginlega. Ég var bara manneskja sem hægt var að ávarpa á tungumáli staðarins – og ég gerði mitt besta við að svara á þeirra eigin máli. Auðvitað gekk það misvel, enda ítalskan mín og grískan frekar hroðvirknislegar. Það er svo merkileg hugarleikfimi að velta því fyrir sér hvers vegna mér líður oft betur í „íslenskuleika“ mínum fyrir utan landsteinana en á Íslandi, þar sem ég er ítrekað ávörpuð á ensku í mínu eigin landi. Því þegar það ber loks á góma þarna erlendis, hvaðan ég sé - þá tekur fólk mark á því þegar ég segist vera íslensk.

Eilífur útlendingur hér, en ekki þar. Á leiðinni heim til Íslands stoppaði ég í París og datt fljótt inn í mitt frönskumælandi sjálf. Það var næstum því sjálfkrafa. Ég var búin að vera þar í innan við sólarhring þegar ferðamaður kom að mér og spurði til vegar. Ég gat aðstoðað og það hvarflaði sennilega ekki að manneskjunni að ég væri ekki frönsk. En hvað er ég þá eiginlega. Á Íslandi berst ég fyrir því að fá að vera íslensk í friði, upp að því marki að mér er stundum farið að finnast það óþægilegt að kalla mig Íslending, fyrst annað fólk sér mig ekki sjálfkrafa þannig.

Í Kaíró hitti ég egypskan vin minn sem er búsettur á Íslandi. Hann var þar með hóp ferðafólks og sagði mér frá því að ein konan hefði setið fyrirlestur hjá mér á Íslandi. Í fyrirlestrinum talaði ég um það að vera Íslendingur með erlendar rætur og nefndi auðvitað Egyptaland í því samhengi – þangað sem mínar erlendu rætur liggja. Í samtali hans og þessarar ótrúlega velmeinandi konu var ég alltaf, „frá Egyptalandi“ í hennar augum. Og hvort það var bara svona sem hún tók til orða, þá minnti þetta mig á öll þau ótalmörgu skipti þar sem fólk virðist gleyma því um leið og það heyrir af egypskum ættum mínum að ég sé vissulega fædd á Íslandi, uppalin og eigi hreinlega stóra íslenska móðurætt. Í hugum svo margra eru bara til tvær tegundir af fólki á Íslandi. Íslendingar og útlendingar. Við sem erum einhvern veginn bæði erum bara ekki til. Við gleymumst oft í öllum upptalningum á fjölbreytileika þeirra sem búa á Íslandi. Fólk á svo erfitt með að skilja stöðu fólks sem á sér tilvist milli tveggja menningarheima, sem er staðsett í þeim og ekki – því það er erfitt að vera bæði hér og þar á sama tíma.

Þótt það sé erfitt þá er í því fólgið ákveðið ríkidæmi, eða svo segir Þórður Sævar kærastinn minn allavega. Ég er að reyna að temja mér að hugsa um það þannig, frekar en að einblína á öll skiptin sem ég upplifi mig utanveltu vegna þessa. Einhvern veginn finnst mér víðsýni hafa verið mér í blóð borin, því ég ólst upp við að ekki allt fólk og öll menning væri eins. Og að það væri líka bara allt í lagi. Við gátum hvort sem er alltaf komið okkur saman um flest. Mér fannst það svo sjálfsagt að ég skildi varla hvernig öðrum gat ekki fundist það líka. Að reka sig á fordómafulla veggi hvað eftir annað frá unga aldri var þess vegna oft á tíðum erfitt. Áður en ég öðlaðist þekkinguna til að setja menningarmun í eitthvað fræðilegt samhengi og skýra mína upplifun fyrir fólki, þá átti ég bara bágt með að koma því í orð. Ég á blessunarlega auðveldara með það núna.

Þetta er þó ekki alltaf auðvelt. Stundum upplifi ég einhverja sálarangist – sem mætti sennilega kalla heimþrá, til lands sem ég hef aldrei búið í. Því þótt mér þætti það skemmtilegt að ég hefði verið talin heimamaður á Ítalíu og Grikklandi, þá fylgdi því nú vitneskjan um að ég væri það ekki. Það var þó ósköp notalegt að vera alltaf velkomin hvert sem ég fór (mér líður ekki alltaf þannig heima). Þessi tilfinning er þó mun sterkari í Egyptalandi. Í þrjár vikur fékk ég smá pásu frá því að vera á varðbergi. Fylgjast með viðbrögðum annarra, gera upp með mér hvort ég eigi að láta í minni pokann og bara leyfa fólki að tala við mig á ensku eða segja fordómafulla hluti fyrir framan mig – eða taka slaginn, eiga vandræðalegt samtal þar sem ég ítreka íslenskukunnáttu mína einfaldlega með því að svara á henni lýtalausri og uppskera svo vandræðagang viðmælandans. Svo gerast þessi atvik ekkert endilega alveg dagsdaglega en eftir 30 ára endurtekningar af þessu þá ristir hvert atvik oft dýpra og hefur meiri áhrif. Öráreitið er svo lýjandi.

Í þessar þrjár vikur í Kaíró efaðist ekki nokkur manneskja um að ég væri egypsk. Jafnvel þegar ég talaði ótrúlega lélega arabísku eða skildi ekki það sem var sagt við mig. Ætli bölvun mín sé sú að ég verði aldrei nógu íslensk til að vera íslensk en greinilega alltaf nógu egypsk til að vera egypsk. Hvort sem ég er hér eða þar. Þarna úti var þetta notaleg tilfinning. Að vera samþykkt og meðtekin sem hluti af samfélaginu. Fá alltaf sama viðmót og allir aðrir. Finna hlýleikann frá fólkinu sem vildi spjalla við mig.

Ég ákvað að reyna mitt allra besta þegar ég væri komin heim að láta þetta ekki á mig fá. Reyna að líða þægilega í íslensku hliðinni án þess að gleyma þeirri egypsku. Ég er mjög meðvituð um það núna að egypska hliðin hálf hverfur hérna heima því ég er svo mikið að reyna að lyfta íslensku hliðinni upp svo fólk taki mark á mér. En það hefur svo á endanum þau áhrif að mér finnst ég vera týnd í sjálfri mér. Því ég er eftir allt saman: bæði, beggja blands – eitt núllar ekki út hitt.