.

View Original

Hamfarahugsanir

Höfuð, herðar, hné og tær liggja undir sænginni þennan laugardagsmorgun. Sólin skín ekki inn um gluggann og mig langar að sofa meir. Ég var samt búin að lofa sjálfri mér að skrifa eitthvað hér svo ég er með símann í höndunum.

Á morgun fer ég til útlanda og ég hlakka nú alveg smá til. Ég veit það verður gaman að fara í vinnuferð - sérstaklega á þennan tiltekna fund - en ég nenni því hálfpartinn ekkert og langar bara að vera heima hjá mér í rólegheitunum. Íbúðin mín er loksins orðin svo hugguleg, mig langar bara að eyða meiri tíma hérna.

Ég sakna Mola alltaf þegar ég hugsa um kósíheit hérna heima, finnst eins og hann sé á vappi einhvers staðar, heima hjá einhverjum öðrum bara. Elsku litli kúturinn. Það er svo ósköp ljúft að finna fyrir væntumþykju frá litlu dýri sem skuldar manni í sjálfu sér ekkert.

Hann var svo lítill og sætur og viðkvæmur. Ég reyndi mitt allra besta að passa upp á hann og hugsa vel um hann - en svo er ég full sjálfsásökunar yfir því hversu veikur hann varð á endanum. Ég hefði átt að gera eitthvað öðruvísi. Mér finnst eins og öll þjáningin í lokin á hans litlu hundaævi hafi verið mér að kenna. Að hann hafi upplifað að ég hafi yfirgefið sig því ég var ekki hjá honum þegar hann dó.

Ég heyri það aftur og aftur í hausnum á mér hvernig ég er áfelld fyrir að hafa ekki verið þarna, fyrir hvað hann var þjáður, fyrir hvað hann leitaði að mér. Ég losna ekki við röddina, þótt það hafi ekki verið sagt upphátt heldur skrifað.

Kannski rifjast þetta með Mola alltaf reglulega upp af því að ég tengi líka hamingjusamar stundir í þessari íbúð við hann. Hann elti mig eins og skugginn, kúrði hjá mér og mætti reiðubúinn að sleikja framan úr mér tárin ef ég grét.

Ef ég bara hefði getað kvatt hann almennilega. Veit svo sem ekki hverju það hefði breytt.

Allavega. Ég veit svosem hvað gerist þegar við deyjum og það er held ég bara eitthvað stjarnfræðilega gott - ég vona því að hundurinn sé bara kátur meðal stjarnanna og veiti kannski pabba mínum félagsskap þarna úti í eilífðinni.

Talandi um dauðann, la petite mort eða litli dauðinn, er oft sagt að sé annað orð yfir fullnægingar. Hljómar mjög franskt og dramatískt að líkja fullnægingarástandi við dauðann en eftir örstutt gúggl komst ég að því að þetta er víst tekið upp úr frönsku yfir í ensku, en þýddi ekki endilega fullnæging á frönsku til að byrja með.

En hvort heldur sem er þá held ég að mannfólkið komist sennilega næst því að skynja mörkin milli lífs og dauða þegar það fær fullnægingar - svona í öllu falli ein leið án þess að nota einhver ofskynjunarlyf.

Talandi um frönsku annars, þá hefur þetta haust vakið einhverja þrá eftir lífinu í París. Vínið, ostarnir, espresso og pain au chocolat. Litlar búðir og fallegar byggingar. Hamingjan sem ég upplifði þar.

Lífið þar var ósköp rómantískt og ég var bara ein með sjálfri mér að hafa það huggulegt. Langar svo að vera í þeim gír aftur. Ekki að ég þrái einsemd og einveru, heldur að líða vel ein með sjálfri mér.

Það er nú einu sinni þannig að þegar maður fær smjörþefinn af góðu samneyti við fólk þá vill maður helst halda í það sem mest. Manneskjan er eftir allt félagsvera og ekki skrýtið að vilja hafa fólk í kringum mann sem vekja vellíðan.

Kannski ég nái að hrökkva í gírinn á þessu ferðalagi, mér hefur yfirleitt hentað vel að vera á flakki - spurning hvort það hafi nokkuð breyst þótt ég hafi fundið ást á því að vera líka heimavið.