.

View Original

(ekki) Par(ad)ís

Ég hef örugglega byrjað einhverja aðra færslu á orðinu París. París kom sterkt í huga minn um daginn. Í hvert skipti sem ég lokaði augunum sá ég nýja götumynd af borginni. Hún er mér oft hugleikin en hún hefur aldrei leitað á mig jafn sterkt og þarna.

Ég er ekki viss hvort það sé borgin sjálf eða hvernig mér leið í París, sem kallaði fram þessar minningar. Ég finn það hvað ég sakna þessa tíma - og sakna mín, sem var. Ég var eitthvað svo full af bjartsýni og gleði, ekkert gat stoppað mig. Ég var ekki laus við áhyggjur en eftir á að hyggja fannst mér ég samt einhvern veginn léttari í sálinni. Mér finnst eins og lífið hérna á Íslandi sé alltaf aðeins þyngra en það var í París.

Mér gengur ágætlega að koma íbúðinni í það horf sem ég vil að hún sé í. Ég er loksins búin að taka til í herbergjunum hinum tveimur (sem ég gleymi stundum að tilheyri íbúðinni). Partur af mér veit ekki alveg hvað ég er að gera hérna ennþá. Ég rokka fram og til baka, ég elska þessa íbúð - og svo stundum vekur hún svo miklar áhyggjur að ég bilast. Allt frá því að fara í hamfarahugsanaheljarstökk um mögulega leka úr þakinu hér og þar yfir í að hringsnúast í áhyggjum um íbúðalán og fjármál.

Það var bara einhvern veginn aldrei í myndinni að eiga ekki heima hér. Ég var ekki í þeirri stöðu að hafa haft eitthvað val. Ég hefði getað selt hana en ég hefði alltaf verið bundin af viðmiðum Seðlabankans og þá ómögulega getað tekið nýtt lán. Nei, ég hefði bara endað á leigumarkaðnum. Ég veit það.

Stundum líður mér bara skringilega heima hjá mér. Skringilega í eigin skinni? Hvers vegna er ég alltaf verkjuð og hvað er að auganu á mér? Ég er bara 33 ára gömul, fjandinn hafi það. Svo líður mér skringilega hér af því að mér finnst svo skrýtið þegar íbúðin er svona tóm. Það voru tveir fullorðnir einstaklingar og tveir hundar hér. Ég sakna þess að heyra litlar loppur á vappi. Jeminn eini hvað ég sakna Mola.

Ég á oft bágt með að trúa því að hann sé ekki lengur í þessari jarðvist. En þegar ég stóð og starði á beislið hans í dag, sem ég fann í tiltekt dagsins, þá áttaði ég mig á því að hann er líklegast í hæstu hæðum - þar sem við endum öll (við erum jú öll bara stjörnuryk) og ég mundi að þegar ég fer á endanum í sama ferðalag og Moli þá munu þaklekar og lánareiknivélar ekki fylgja mér.

Það þýðir þó að vísu ekki að ég ætli að gefast upp á öllu. Ég þarf bara ekki að hafa stanslausar áhyggjur. Það er samt erfitt að vera ekki með áhyggjur þegar ég flakka á milli þess að vera með áhyggjur af mínu húsnæði og lífsviðurværi og áhyggjur af öfgum og hatri í kringum mig. Mér finnst svo rosalega margt fólk bara blint á það sem er að gerast. Blint á orðræðuna sem er að magnast upp. Blint á að hatur ráðafólks á ó-hvítum einstaklingum er svo mikið að þau eru tilbúin til þess að skrifa lög sem brjóta í bága við skuldbindingar landsins gagnvart mannréttindum, bara til að geta vísað brúnu fólki úr landi sem fyrst. Af því að, horfumst bara í augu við það, flest allt fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á landinu í dag - sem fær ekki undanþágu af því það kemur frá Úkraínu - er brúnt eða svart fólk.

Þetta er fólkið sem XD vill bara alls ekki að festi rætur hér. Vilja frekar að séu heimilislaus og „samvinnuþýð“ (hvenær getur maður verið samvinnuþýður gagnvart því að láta flytja sig í ömurlegri aðstæður? Ég hef lesið þessa orðræðu áður, að vera bara „samvinnuþýð“ og þá verði allt í lagi…. Það varð ekki allt í lagi. Sagan mun dæma okkur). Og til að fá stuðning við þessi ófremdarlög þá tala þau inn í orðræðu haturs. Þau ýta undir andúð á þeim sem sækja um hæli (brúna- og svarta fólkinu þ.e.a.s., þeim finnst í lagi að fólk sem flýr stríð nær okkur sæki um vernd, annað en þau sem flýja aðstæður lengra í burtu).

Á meðan þau ala á þessu hatri flýtur flest fólk sofandi að feigðarósi af því að þetta allt saman, eins pirrandi og asnalegt og þetta er, það snertir þau ekki. Það mun aldrei bíta á þau. Það mun aldrei skerða réttindi þeirra. Það mun aldrei verða til þess að fólk segi eitthvað ljótt við það úti á götu. Það mun aldrei verða til þess að vekja ótta hjá þeim persónulega. Einn daginn mun þetta fólk vakna og fatta að það hefði átt að segja eitthvað, það hefði átt að gera eitthvað - en það gerði ekkert. Það talaði um það, það hneykslaðist með vinum sínum, það reyndi að stappa stálinu í þau okkar sem vöruðu við þessu. Hvar verðum við þá?

Það er fullt af fólki þarna úti sem hatar hugmyndina um að fólk eins og ég sé til á þessu landi. Og ekki nærri því nógu mikið af fólki, sem kynþátta- og menningarfordómar (jú eða hinseginfordómar) hafa engin hversdagsleg áhrif á, láta það sig varða raunverulega.

Þetta er svo þreytandi. Ég óttast í alvöru hvernig þetta heldur áfram. Mig langar bara að finna einhverja ró og lifa hamingjusömu rólegu lífi án þess að vera alltaf sífellt að velta mér upp úr þessu. Getur þetta lið ekki bara eytt öllum þessum tíma í að laga heilbrigðiskerfið eða eitthvað, frekar en að velta sér upp úr hvernig hægt sé að níðast á fólki og flótta og ala sem mest á kynþáttafordómum.

Kræst.

Mikið er gott að pústa.