.

View Original

Halla mér að skýi

Ég sá svo ótrúlega fallegt sólarlag hérna úti fyrir Laugarnesinu í gærkvöldi.

Í fjarska var Snæfellsjökull upplýstur af sólsetrinu, himinninn rauðglóandi í kringum jökulinn en var ljósari austan við hann og sýndist gulur. Skýin voru grá eða dökkfjólublá, en á þau varpaði sólarlagið gullnum bjarma. Skýin næst mér voru líka grá eða fjólublá en himinninn á bakvið þau skærblár, ljósblár. Spegilmynd himinsins næst mér, þar sem ég stóð á Laugarnesinu, varpaði ljósbláum ljóma á sjóinn. Þegar ég kom gangandi að strandlengjunni þá sá ég ekki þetta endurskin fyrr en ég var komin á brúnina á klettunum þar sem ég stóð, og sjórinn lýstist upp fyrir augum mínum líkt og bláir ljóskastarar væru neðansjávar.

Allt þetta á meðan Snæfellsjökull lýstist upp í fjarska af rauðglóandi sólarlaginu.

„Ég hef aldrei séð fegurri sjón,“ hugsaði ég.

Ég hef samt séð margt fallegt. Ég man eftir stjörnubjörtum nóttum á Sínaí-skaganum sem voru slegnar silfurlitu tunglskini og hátt í 30 gráðu hita. Þær nætur get ég ekki borið saman við neitt.

Ég hef séð Ísland í allskonar búning og verið dolfallin.

Ég hef séð skýin sjálf mynda skýjaborgir og myndir sem virðast áþreifanlegar úr háloftunum þótt ég viti vel að þær munu aldrei grípa mig.

Ég hef séð falleg augu horfa aðdáunarfull í augu elskhuga í næturhúminu.

Þetta er allt fallegt. Ég get ekki fullyrt um hvað sé fallegast. En þetta sólarlag var eitthvað met.