Draga sængina upp fyrir haus
Þetta er alveg ótrúlega fallegur dagur. Ég ligg undir sæng í myrkvuðu herberginu mínu og hausinn er á milljón, mig eiginlega verkjar af hugsunum.
Það er að renna hægt upp fyrir mér ljós að alvarleiki lífsins tekur við í næstu viku. Vinna með öllu tilheyrandi, og ég er að mikla allt fyrir mér.
Ég renndi í gegnum dagatalið og vinnupóstinn (sem ég hefði auðsjáanlega ekki átt að gera) og fylltist kvíða. Hringdi í besta vininn og jók þessum áhyggjum yfir hann. Post summer blues, kallaði hann þetta. Áhyggjurnar snúast að einhverju leyti að því að stjórna ekki tímanum mínum sjálf - þessi blessaða skuldbinding sem vinnan er - og að geta ekki bara gert hvað sem helst (lesist: farið hvert sem helst).
Auðunn sagði að honum fyndist að allt fólk ætti að fá kennarafrí. Hann er búinn að vera í fríi síðan í skólaslitum og byrjar ekki fyrr en í lok ágúst. Nokkrar vikur til að trappa sig niður, nokkrar vikur í raunverulegt frí og að lokum, nokkrar vikur í að gíra sig í gang.
Ég er sammála þessari vangaveltu hans.
Það er annars helst þessi loddaralíðan sem er að bjaga mig. Hún hefur laumað sér að mér með sívaxandi hætti síðustu daga. Mér finnst ég vera bara alveg gjörsamlega ómöguleg. Það skrýtna er að innst inni veit ég alveg að ég er það ekki en það er svo auðvelt að festast í hringiðu kvíðans og hreinlega trúa þessu.
Í augnablik áðan náði ég að hrista þessar hugsanir af mér með því að finna rót tilfinninganna (sumsé grafa aðeins í það hvers vegna loddaralíðanin kemur) og sýna þeim parti af mér, sem virtist vera að fríka út, mildi. Hljómar hálf galið að setja það í orð hvernig man huggar sjálfa sig en það á það til að virka. Ég get ekki orðað það öðruvísi en að ég eigi samtal við sjálfa mig eins og ég sé að hughreysta lítið barn.
Þetta virkar, þótt ekki nema í örskamma stund.
Ég hef fært mig undan sænginni og út á svalir. Hausverkurinn er samt ærandi. Mig langar að leggja mig en smiðurinn sem er að setja glugga á baðherbergið er mættur og ég vil svona fylgjast með því, með öðru auganu allavega, hvernig honum miðar áfram.
Mig dreymdi Mola í nótt. Þetta er í fyrsta skipti sem mig dreymir hann, blessaðan hundinn. Fyndið hvað samtal um skilyrðislausa ást rétt fyrir svefninn kallaði fram einhverjar minningar tengdar Mola, og svo dreymir mig hann akkúrat í kjölfarið. Enginn hefur elskað mig skilyrðislaust utan foreldra minna, annar en hundurinn Moli.
Í draumnum var hann týndur - svipað stef og þegar mig dreymdi pabba fyrst eftir að hann dó, ég var alltaf að leita að honum. Í draumnum sagðist minn fyrrverandi ætla að leita að honum. Ég óskaði honum góðs gengis enda fullviss um að hundurinn væri dáinn og ætlaði ekki að leita neitt frekar. Hann sagði þá við mig „trúi ekki að þú ætlir bara að segja þetta og gera svo ekkert“, sem stakk mig því mér fannst það gefa til kynna að mér væri sama um hundinn. Ég veit alveg í hvaða orðum þessi tilfinning á raunverulega uppruna, en ég var erlendis þegar Moli dó og gat því ekki verið til staðar. Ég veit að orðin voru sögð í hugsunarleysi en þau hafa setið í mér síðan.
Í draumnum fann ég Mola litla aftur. Það var ósköp ljúft. Hann var veikburða en lifandi, ólíkt fyrstu draumunum um pabba eftir andlátið hans, sem voru hræðilegar martraðir litaðar af dauðanum. Jafnvel þegar ég hélt ég væri komin í ágætis jafnvægi þá spruttu þessir draumar fram eins og þruma úr heiðskýru lofti.
Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess að man veit greinilega ekki allt sem kraumar niðri í undirmeðvitundinni. Sama á við um allt gamla óöryggið og óttann sem er greinilega geymt á vísum stað svo hægt sé að henda því framan í mann í tíma og ótíma.
Á svona dögum þar sem mér líður ómögulega er gott að setjast niður og skrifa. Mér finnst erfitt að vera illkvittin við sjálfa mig þegar ég skrifa það sem mér liggur á brjósti, ólíkt því þegar hugurinn æðir fram og hugsanirnar brjóta allt og bramla sem fyrir verður eins og beljandi jökulfljót sem eyrir engu. Við skrifin er ég skilningsrík og vel orð mín vandlega, líkt og ég sé að tala við góðan vin.