.

View Original

Á Bíldudals grænum (baunum)

Við sitjum tvö undir í grænum tékkóslóvakískum tjaldhimni. Það er líkast til 50 ára gamalt, að minnsta kosti. Við tjölduðum ekki innra tjaldinu í þetta skiptið, en það er hér, samanvöðlað úti í horni. Út um plastgluggana sé ég litla bláa tjaldið þar sem ég svaf í nótt og silfurlitaðan jeppann hans Auðuns - þar sem hann svaf í skottinu. 

Auðunn skaust á klósettið í Skrímslasetrinu og kippti með sér kaffi fyrir okkur bæði. Það var gott að drekka heitan drykk svona eftir að hafa skriðið úr svefnpokanum. Ég lagði grísku jógúrtina og laxa- og rækjusalatið á ljósblátt felliborð sem hefur eflaust séð margar útilegurnar (það er nota bene eins og eldhúsið mitt á litinn). Sumt af því sem ég borða í útilegu fengi ég mér aldrei heima, en finnst ekkert að því að gæða mér á í þessum aðstæðum. Í þessu tilfelli: laxa- og rækjusalat. Ákveðin rödd Stellu í orlofi glymur prakkaralega í hausnum á mér, „og svo er svona laxahjarta handa Salómon“.

Hér eru annars nánast engir nýir hlutir. Í fljótu bragði sýnist mér það helst vera skóflan sem Auðunn gróf undan sætinu þegar hann var að raða bílnum þannig að dýna kæmist fyrir í skottinu, en hún liggur núna við rennilásinn á leið út úr tjaldhimninum. Semsagt, út við dyr.

Við erum sjálf yngri en flest hérna undir þessum tjaldhimni, fyrir utan mat og drykk. Jú og sennilega gaskútinn. Nú rignir örlítið en það er erfitt að segja til hversu mikið þar sem öll hljóðin magnast á tjaldhimninum. 

Ég hef bara einu sinni misst af Bíldudals grænum, það var árið 2019 þegar ég bjó í París. Mér þykir alltaf gaman að koma og hitta fólk sem kannast við mig - enda mikið af þeim hér. Þetta er kannski einn sá staður þar sem ég upplifi helst að ég tilheyri einhverju þéttu íslensku samfélagi. Helst á baununum samt, dagsdaglega er ekki nógu mikið fólk á ferli á Bíldudal sem myndi kannast við mig í sjón. En allavega hér og nú. Mikið er það notalegt. 

Auðunn er hér með mér í annað skiptið, síðast var hann með í för árið 2017 í bongó blíðu eins og yfirleitt er á baununum - í þetta skiptið virðist ætla að vera grátt og blautt. Sem kemur svo sem ekkert á óvart á þessum síðustu og verstu… Ég veit ekki hversu oft í gær við svöruðum því að Auðunn væri besti vinur minn, þegar forvitnir fjarskyldir ættingjar horfðu á mig og bentu á hann og sögðu: „er þetta…?“ „Auðunn. Besti vinur minn.“ „Nú, já… sæll og blessaður“. Öll greinilega meðvituð um að ég er nú einhleyp kona á fertugsaldri en slikt vekur auðsjáanlega forvitni - sérstaklega þegar álitlegur maður eins og Auðunn er með í för.

Þetta hefur þó allt bara verið skemmtilegt. Nema kannski þegar gamli maðurinn á tjaldstæðinu hætti að hrósa tékkóslóvakíska tjaldinu og færði sig upp á skaftið: Hann bauðst til þess að skríða í tjaldið til mín og ylja mér í nótt, þegar hann komst að því að ég yrði ein þar. Ég mótmælti þessum tilburðum en hann hélt þá bara áfram í röksemdafærslunni um það hvers vegna ég gæti ekki ein haldið á mér hita. Frábært. „Ég var nú bara að grínast vina mín“. Ég nikkaði til hans og svaraði engu. Langaði að segja „þú getur bara tekið þessa perrabrandara og troðið þeim upp í rassgatið á þér“ en ég er svo kurteis og dipló (óþolandi stundum) að ég beit í vörina á mér og sagði ekkert. 

Í gær var annars skemmtileg setningarathöfn á Tungunni (aflíðandi túnbali nálægt skólahúsinu) en þar léku bílddælskir tónlistarmenn fyrir söng með aðstoð sprelligosa frá Patró. Það var eitthvað um skot á milli bæja (grínskot, altso) en fyndnast þótti mér þó þegar fáninn var dreginn að húni og hann blaktaði ekki - enda alltaf logn á Bíldudal. Patreksfirðingurinn hafði þá orð á því að fáninn væri allavega fallegri á Patró, þar væri í öllu falli hægt að sjá hann. 

„Enda algjört rokrassgat!“ - Heyrðist hrópað úr mannmergðinni.

Svo hlógu allir og héldu áfram að tralla. Sprelligosinn frá Patreksfirði (eða ég er að giska á að hann sé ættaður þaðan, fyrst hann talaði máli Patreksfjarðar) er þjóðþekktur leikari. Þótt ég hafi ekki séð mikið af því sem hann hefur gert þótti mér hann allavega stórkostlega skemmtilegur hljómborðsleikari og söngvari þarna í gær. Hápunkturinn var sennilega þegar hann söng Undir bláhimni með mikilli innlifun og djúpri röddu - alveg þar til hann var að negla einhvern háan tón og hljómborðið datt ofan á fótinn á honum. Hái tónninn varð að veini - sem síðan varð að hlátri. 

Hann hélt að sjálfsögðu áfram með lagið, á nákvæmlega þeim stað sem hann var um leið og hljómborðið var komið á sinn stað. The show must go on. 

Bílddælingarnir tóku svo nokkur lög sem hafa verið samin af tónlistarfólki úr plássinu - eflaust af mörgu að taka enda bærinn lengi verið þekktur fyrir mikið menningarlíf. Í hljómsveitinni þeirra var einnig ungur saxófónleikari sem tryllti lýðinn, en ég er viss um að hann sé héðan.

Forstöðukona Muggstofu hélt hátíðarræðuna á undan tónlistarflutningnum, en hún er upprunalega úr Grindavík. Mér þótti vænt um áherslur hennar á að fagna fjölbreytileikanum og hvernig hún kom inn á það hversu erfitt það getur verið að flytja á nýjan stað (sérstaklega þar sem allir virðast þekkja alla - eða eru bara skyldir öllum eins og hér). Þá skiptir svo miklu máli að taka vel á móti fólki, eins og henni fannst hafa verið tekið á móti sér. 

Seint í gærkvöldi gengum við rúnt niður á höfn og skoðuðum bátana. Einhver Verbúðarstemning í bland við retro fílinginn í tjaldinu. Okkur vantar í raun bara litríka krumpugalla til að vera dottin í eitthvað tímabilsástand. Ég datt úr þessari hugsun þegar Auðunn nefndi hversu þægilegt það væri orðið að ganga frá skólagjöldunum í Háskóla Íslands með farsímanum einum og sér - engin þörf á kortaupplýsingum eða millifærslum eins og áður. Daddy Apple sér um okkur. Hann borgaði skólagjöldin með Apple Pay. Bráðum verður hann með fimm háskólagráður. 

Meistari þessi vinur minn.

Hann var svo rétt í þessu að standa upp til að laga sér meira kaffi á eldgamla prímusnum (reyndar, gæti verið að hann sé ekkert svo gamall og líklega yngri en við) og ég ætla að skjótast á Skrímslasetrið á klósettið og sækja vatn í leiðinni.

Fyrir ekki svo löngu keyrði hvítur sendiferðabíll fram og aftur um bæinn. Úr honum gjall við hátt úr gjallarhorni „Góðan daginn! Dorgveiðikeppnin byrjar klukkan 11 niðri á bryggju.“ Hann keyrði nokkra hringi um bæinn og hvatti fólk til að mæta á dorgveiðikeppnina. Eins íslenskt og það gerist. Lífið er ljúft.