Í Skorradal
Horfi út um gluggann
á vatnið, sem gárast.
Sólin hefur risið.
Sólin hefur sest.
Handan fjallsins,
hulin sjónum mínum.
Ég sá samt bjarmann
frá björtum himnasal.
Nú dimmir í Skorradal.
Það er smá skemmtilegt að byrja þessa færslu á vísun í ljóð eftir sjálfa mig. Finnst ég óttalega merkikerti að gera það. Ljóðið er samið í öðrum bústað hérna í Skorradalnum, við allt annað tilefni - enda ber það nafnið Desembermyrkur. Í augnablikinu er öðruvísi um að lítast hér, enda júní og bjart fram á nótt.
Áðan sá Auðunn uglu - segir hann - en ég get ekki sagt til um það þar sem ég hélt hann væri að benda mér á uglu í sjónvarpinu. Ég horfði þ.a.l. ekki í rétta átt þegar hann benti út.
Ég er semsagt á kunnuglegum stað, í Skorranum (ekki viss um að bústaðurinn heiti það, en við köllum hann oft með því nafni); bústað fjölskyldu Auðunns. Ég gisti yfirleitt alltaf í sama herberginu þegar ég er hér. Þegar við höfum verið mörg, og fleiri pör í hópnum, höfum við Auðunn að vísu deilt þessu herbergi - enda hafa lengi verið tvö einsmanns rúm hér inni - og við oftar að þvælast án maka en hin.
Nú er nýbúið að setja tvíbreytt rúm í þetta herbergi, enda er þetta í raun herbergið sem foreldrar Auðunns nota þegar þau eru hér - og það því viðeigandi. Ég fæ því stórt rúm fyrir mig eina í nótt. Hið fínasta mál að dreifa úr sér og njóta svefnsins (þótt ég viðurkenni fúslega að það væri eflaust huggulegra að vera ekki hér ein).
Svefninn sígur á brá og augnlokin þyngjast með hverjum andardrættinum.
Ég
er
alveg
að
sofna
hugsa ég - og áður en ég lognast út af birti ég þessa tilgangslausu færslu. Góða nótt.