.

View Original

Andvaka í To-Le-Do

Þetta var einn af þessum alltof löngu dögum. Dagur þar sem hugur minn ætlaði líkamanum aðeins of mikið. Ég eyddi 6 klukkustundum* í aðstæðum þar sem mér leið bara frekar illa, reyndi eftir fremsta megni að vera jákvæð og endaði á að brotna niður. Hálf hljóp að lokum í gegnum myrk stræti borgarinnar, sem gladdi mig svo fyrr í dag, með tárin í augunum og alltof hress lög í eyrunum.

*Það láðist sumsé að láta mig vita að dagskrá kvöldsins yrði utandyra, fjarri byggð - svo ég mætti klædd, temmilega fín, eins og til að fara út að borða (innandyra). Það er ekki orðið hlýtt á kvöldin á Spáni. Ég var smá kvefuð fyrir, þetta var bara ávísun á veikindi.

Af einhverjum ástæðum triggeruðu síendurtekin komment fólks á útganginn á mér einhverjar gamlar (miður skemmtilegar) minningar um stríðni og útilokun, þó rökhugsunin mín viti alveg að ekkert slíkt var að eiga sér stað.

En vá, hvað ég er allavega þakklát fyrir Erlu sem byltir sér í rúminu hérna hliðina á mér. Þetta var ekki þannig kvöld að ég hefði viljað vera bara ein hérna. Ég ligg nú og stari út í tómið með hálsbólgu og reyni að leyfa tárunum að falla bara hljóðlaust (vil ekki vekja hana).

Ég er að reyna eins og ég get að vera þakklát fyrir að vera hér en mig langar bara svo mikið heim. Heim í rúmið mitt, undir sæng. Óttalega lítil í mér eitthvað. Skrölti stuttlega fram úr rúminu til að snýta mér og finn í leiðinni tvo litla pylsubita (skárra en það hljómar, svona gúrme spænsk pylsa) sem ég hafði ekki klárað í dag. Sest á gólfið út í horni, snýti mér og gúffa í mig pylsunum. Fer svo aftur í rúmið.

Gott samt að skjalfesta þetta líka allt saman. Lífið er ekki alltaf einhver draumkennd glansmynd. Í kvöld var það eitthvað öfugsnúið allt saman. Lexía, auðvitað, um að hlusta á hvað líkaminn segir.

Ég er nokkuð viss um að ég vakni samt á morgun sáttari við þetta ævintýri: þetta kvöld verður saga til að gera grín að seinna. Saga sem ég rifja kannski upp í heitu baðkarinu heima á meðan ég hlæ að þessu öllu. En guð hvað ég væri til í að vera allt annars staðar en andvaka og lasin í Toledo akkúrat núna.

Allt. Annars. Staðar.

Eða, bara hér - til dæmis. Fjarri mannabyggðum, að hlusta á brimið.