vakna við ljóð
Á virkum dögum langar mig alltaf að sofa lengur en ég geri, en í dag reif ég tölvuna glöð í fangið kl. 07:20 til þess að skrifa ljóð. Ég veit fyrir víst að birtan frá skjánum mun vekja mig en samt gat ég ekki beðið. Ég vildi ekki týna ljóðinu út í óendanleikann. Veit ekki hversu mörgum ljóðum ég hef týnt þangað af því að ég gleymdi að skrifa þau niður.
Nú hef ég reynt að vera dugleg og skrifa þau á farsímann, jafn vel þótt ég sé úti í rigningu á hlaupum eftir Hopp bíl. Það er í rauninni merkilegt yfirhöfuð hvað hausinn á mér er frjór þessa dagana. Skáldagyðjan hefur kíkt til mín eftir langt hlé. Ég held ég viti hvers vegna það er. Hún laðast örugglega að afslöppuðu sálarlífi - sem er mun meira af hjá mér þessa stundina. Svo hef ég verið dugleg að fóðra hana líka, með því að lesa ljóð eftir aðra, lesa bækur og pæla í textasmíð almennt.
Svo hjálpar auðvitað til dass af hamingju og eftirvæntingu.
Ég hef svolítið verið að skoða textann í þessu lagi hérna fyrir neðan. Hann er ótrúlega ljóðrænn og lagið líka hrífandi, það spilast einhvern veginn í hausnum á mér í tíma og ótíma.
Áður en þessu lagi var deilt með mér hafði ég, að því er ég best man, ekki heyrt eitt einasta lag með hljómsveitinni kef LAVÍK. Að minnsta kosti ekki þannig að ég vissi að ég væri að hlusta á hljómsveitina. En ég kolféll alveg fyrir þessu lagi og það er stundum orðið smá yfirþyrmandi hvað sumar línurnar endurtaka sig aftur og aftur í hausnum á mér án þess að ég fái nokkru um það ráðið. Það virðist ekkert hjálpa að hlusta á lagið (eins og er talað um að eigi að gera þegar fólk fær lög á heilann) heldur styrkist það bara í ákveðni sinni.
Textinn virkar dásamlega sem ljóð (og lagið gerir hann auðvitað enn betri) - og ég er alveg á því að þetta séu með betri textasmíðum sem ung hljómsveit á Íslandi hefur gefið frá sér í seinni tíð. Eins og svo oft þegar einhver sendir manni lag þá hugsa ég óneitanlega til þess sem sendi mér lagið í hvert skipti sem ég hlusta á það. Þannig getur tónlist verið svo skemmtileg, eins og gjöf sem heldur áfram að gefa. Ég tengi tónlist oft við persónur og minningar, en oftast tengi ég lög við fólkið sem kynnti mig fyrir þeim. En aftur að textanum. Það rann fljótt upp fyrir mér ljós að það eru margar vísanir í uppáhalds ljóðið mitt eftir Davíð Stefánsson í þessum texta.
Óráð - Davíð Stefánsson
Ah, ah - nú sofna ég,
fyrst svona er dauðahljótt;
svo hitti ég í draumi
drottninguna í nótt.
Þá gef ég henni kórónu
úr klaka á höfði sér.
Hún skal fá að dansa
eins og drottningu ber.
Svo gef ég henni svarta slæðu
að sveipa um líkamann,
svo enginn geti séð,
að ég svívirti hann.
Svo gef ég henni helskó,
hitaða á rist,
og bind um hvíta hálsinn
bleikan þyrnikvist.
Svo rjóðra ég á brjóst hennar
úr blóði mínu kross
og kyssi hana í Jesú nafni
Júdasarkoss.
Svo dönsum við og dönsum
og drekkum eitrað vín.
… Ég verð konungur djöflanna,
hún drottningin mín.
Í Óráði eftir Davíð hittir hann drottninguna sína. Hann svívirðir hana í raun en á sama tíma finnur maður líka fyrir einhverri þrá eftir henni - enda verður hann konungur djöflanna og hún drottningin hans. Þrátt fyrir að Davíð kyssi drottninguna svikulum Júdasarkossi þá drekka þau líka saman (eitrað) vín - og dansa og dansa (þótt hann hafi gefið henni helskó og bundið um hálsinn þyrnikvist). Myndmálið í ljóðinu hefur alltaf vakið upp svo ótrúlega miklar pælingar, því ég átta mig hreinlega ekki á sambandi hans við drottninguna, sem mig langar einhvern veginn samt svo að skilja. Það er eiginlega mesta furða að sami maður hafi samið Óráð og ljóðið sem hefst á línunum Snert hörpu mína himinborna dís.
Textinn í laginu Inni í miðjunni að dansa eftir kef LAVÍK kallast skemmtilega á við Óráð. Mér finnst textinn vera eins og hversdagslegt nútímaástarljóð, með einhverja vísun í djamm náttúrulega. Ég skil til að mynda línuna „sérhver snerting verður hnefahögg frá þér“ ekki þannig að snertingin sé á einhvern hátt ofbeldisfull, heldur að hver minnsta snerting sé magnþrungin og slái sögumann út af laginu. Þótt sú lína eigi það til að enduróma í hausnum á mér þá er uppáhalds erindið mitt það síðasta. Þar má heyra sungið „og ég finn er ég sleppi þér, storkna í mér blóðið“ sem mér finnst eitt skemmtilegasta myndmálið hér. Ég hef aldrei hugsað út í þetta en ég kannaðist strax einhvern veginn við tilfinninguna. Ekki að blóðið hafi bókstaflega storknað í mér en hvernig ólíkar tilfinningar geta skapað þessa upplifun - að blóðið þjóti um æðar manns, eða hreyfist bara alls ekki. Þrátt fyrir að í raun finni maður aldrei fyrir því, þannig séð. Sú lína endurtekur sig hvað eftir annað í hausnum á mér, eins og einhver ljóðrænn sannleikur.
Inni í miðjunni að dansa - kef LAVÍK
Enn þá ferskt inn í minninu
Útreið hefst í fölri dagsbirtu
Sérhver snerting verður hnefahögg frá þér
Eitrað vín - deyfandi
Beinagrindur hanga úr ljósakrónunni
Fingurnir
Grípa um mittið eins og skjöld
Syngjum ,,líkami stattu nú
Örlítið lengur
Þessi rósadans
Er það síðasta
Sem þú gerir þótt þú sért þreyttur"
Svífa þúsund augnablikanna
Eins og geislabaugar á hana
Er þau renna milli handanna okkar
Bjórarnir helskórnir
Ég sé flóðljós lýsa björt í kring um þig
Púkarnir
Fljúga hársbreidd yfir mig
Og við föðmumst og vöggum
Mjöðmunum við taktinn
Gegn um þykka þoku
Sést djöflahópur
Að hringsóla í kringum valsinn
Þúsund öskur keyra skjávarpa
Sem lýsa upp alla veggina
Endurtaka fyrstu nóttina okkar
Sálin mín, lotningin
Er auðsjáanleg í nætursólinni
Sér hún mig
Kannski í réttum hlutföllum
Syngjum ,,fætur nú fetið þið
Létt yfir gólfið
Og dansið mjaðmir
Því dauðinn starir
Og dæmir í hljóði"
Heyri í úlfunum á hurðinni
Þétti eyrað upp við brjóstið þitt
Til að fókusa á hjartsláttinn í því
Skartgripir, vængirnir
Ég bind þyrnikvist um hvíta hálsinn þinn
Fæturnir
Staðnæmast að morgni til
Og ég finn er ég sleppi þér
Storkna í mér blóðið
Það er hvirfilbylur
Af minningunum
Að fjúka um gólfin