.

View Original

Tíminn

Þegar ég var í námi í Kanada var ein bók á leslistanum í áfanganum Littérature maghrébine (uppáhalds áfanginn minn) alsírska bókin Nedjma eftir Kateb Yacine. Ég viðurkenni fúslega að færni mín í frönsku var ekki upp á nógu marga fiska á þessum tíma til að ég skildi bókina á þann hátt sem mér skilst að hún eigi skilið að vera lesin, svo til þess að drösla mér í gegnum áfangann studdist ég við glósur frá öðrum. Í lestri mínum skildi ég þó eitt, og það var að söguþráðurinn fer heilan hring. Þegar ég las mér betur til um bókina - í veikri tilraun til að skilja innihald hennar ögn betur - lærði ég eftirfarandi: Í bókmenntaheimi hins júdeó-kristna menningarheims líður tíminn í beinni línu. Í arabískri hefð er tíminn hringlaga.

Að horfa á tímann sem eitthvað hringlaga þýðir að fortíðin og framtíðin renna saman í eitt, stökk á milli nútímans og einhvers sem á eftir að gerast er mögulegt, og ekkert á sér í raun upphaf né endi.

Ég hef áður velt þessu fyrir mér þegar ég skrifaði óreiðukennda smásögu um ástir þvert á Ísrael-Palestínu deiluna út frá laginu Tragedy með Bee Gee’s sem ég hlustaði á, í flutningi einhvers annars, í útilegu í beinni útsendingu á Rúv um Verslunarmannahelgina 2020. Þetta er örlítill útúrdúr, en það er best að hlusta á lagið og lesa söguna samtímis. Lagið er nefnilega mjög tragískt.

En þessar vangaveltur mínar með að tíminn sé hringlaga fyrirbrigði - sem er náttúrulega mjög umdeilt og ýmsar kenningar um tímann til - hafa sérstaklega sprottið upp hjá mér þegar ég hlakka til einhvers. Stundum hefur það verið eitthvað einfalt á borð við að vera þreytt erlendis á leið í flug og vita að það sé langt ferðalag framundan: tilhlökkunin um að vera komin upp í rúmið mitt heima verður svo sterk að ég er nánast komin þangað í huganum. Þá hugsa ég oft um það andartak í tímans rúmi þegar ég verð í rauninni komin á staðinn - og hvernig ég muni þá hugsa um stundina þegar ég var að hlakka til þess. Hvað verður um tímann þar á milli, hverfur hann vegna þess að ég var búin að taka stökkið í huganum - eða mun millitíminn skipta mig miklu eða litlu máli?

Síðustu vikuna hefur mér fundist tíminn lalla löturhægt áfram vegna þess að ég er með ákveðna tilhlökkun í brjósti. Í næstu viku held ég í ferðalag og verð að heiman í heila 10 daga. Það er lengsta fjarvera frá Íslandi síðan ég fór til Egyptalands síðasta haust. Mér fannst það lítið mál, en að fara þangað er líka eins og að fara heim. Ég hlakka til að fara í þessar tvær vinnuferðir sem ég ætla að steypa saman með langri helgi í Madrid í millitíðinni, en af því að ég er líka full tilhlökkunar að koma heim aftur og hitta sumarið sem ég vona að bíði mín á Íslandi við heimkomuna, þá hefur hausinn minn verið kominn alla leiðina hingað aftur - þótt að ég eigi ferðina eftir.

Þá fer ég að setja mig í stellingar, hvernig mun mér líða þegar ég kem heim, mun ég hugsa hvað það var fyndið að ég hafi hlakkað til - fyndið að mér hafi fundist þetta langt í burtu: því svo væri dagurinn bara allt í einu kominn.

Ágætis lexía um að vera bara hér í núinu, ótrúlega fallegt að geta verið þakklát fyrir það að velta sér í gegnum hversdagslífið. Hver dagur er bara eins og hann á að vera. Hvert pússl þarf að falla á sinn stað. Frábært að hlakka til - og þvílíkt og annað eins endemis fallega dæmi að hafa eitthvað að hlakka til (ósköp mikil forréttindi) - en auðvitað á tilhlökkunin ekki að þurrka út lífið sem á sér stað þar til mómentið er komið.

Þótt ég geti á einhvern hátt beygt tímann eftir eigin höfði innra með mér, þá þarf ég stundum bara að leyfa honum að rúlla áfram í rólegheitunum.