.

View Original

Slaka á

Mamma er alltaf með áhyggjur af því að ég keyri mig út. Hausinn alltaf á fullu og ég kann ekki að slaka á. Ég ólst upp við að klára alltaf að taka til eða gera heimavinnuna mína áður en ég mátti fara út að leika; í dag kann ég ekki að ráðstafa tímanum mínum í afslöppun.

Ég er oft með lausan tíma og hugsa með mér hvað ég sé heppin að eiga svona mikinn tíma til að slaka á. Nema bara hvað, ég slaka svo ekkert á. Finn eitthvað verkefni af óralanga gátlistanum sem ég er alltaf með bakvið eyrað, og reyni að „nýta tímann“ til að saxa á hann.

Nú ligg ég í rúminu mínu eftir vonleysislega tilraun til að hvíla mig eftir vinnu. Ég eyddi þessum tíma þó ekki alveg til einskis því ég hlustaði á sköpunarþránna og eyddi tímanum sem ég ætlaði að nota í lúr til að skrifa.

Færslan er hálfljóðræn örsaga eða eitthvað, sem ég velti fyrir mér hvort ætti heima í blogginu eða ekki. Af því að hún er sprottin úr hugarfylgsnum mínum en á svo sem enga stoð í raunveruleikanum þannig séð, held ég að hún eigi frekar heima í öðrum afkima þessarar vefsíðu. Nánar tiltekið hér.

Þannig að ég afrekaði allavega eitthvað. En ekki að slaka á. Endurtekist ad infinitum, ég virðist ekki geta lært það.