.

View Original

Morgunkúr

Mér finnst gott að kúra í rúminu mínu á morgnana eftir að vekjaraklukkan hefur vakið mig. Jafnvel gerist það frekar oft að ég vakna á undan vekjaraklukkunni en fresta svo bjölluhljómnum í henni mörg skipti áður en ég fer fram úr.

Ég held ég hafi þessa morgunværð frá mömmu. Hún sefur oft frameftir og er alls ekki eins morgunhress og ég - því þrátt fyrir kúrið er hausinn á mér glaðvakandi.

Ég hef staðið mig að því að verða bara ótrúlega leið ef ég byrja daginn á að lesa fréttir. Það er voða lítið skemmtilegt að lesa þessa dagana. Ég er á einhvern hátt að stinga hausnum í sandinn, tíminn þýtur áfram, heimur versnandi fer og ég hef ekki andlega orku til lesa um þetta allt. Kannski af því að ég get ekki barist við þetta allt. Ég reyni að berjast gegn fordómum, tek þátt í umræðum sem ég hef einhverja þekkingu á - og þar sem þekking mín hefur eitthvert vægi.

Ég vona að þetta skili einhverju. Að ég sé ekki bara að blaðra út í loftið án þess að það hafi nokkur áhrif.

Svo er nauðsynlegt, í öllu svona, að geta kúplað sig almennilega út. Ég vona að sagan endurtaki sig ekki (mannkynssagan altso) og ég geti haldið áfram að kúpla mig út í rólegheitum - með fólkinu sem færir mér gleði og hjálpar mér að slaka á.