.

View Original

Lífið í Reykjavík

Ég er búin að fylla heimilið mitt af pottaplöntum. Ég fattaði þegar ég leit upp úr sófanum og horfði á nýjustu viðbótina - ég veit ekki einu sinni hvaða tegund hún er - og sá að hún var umkringd allskonar öðrum plöntum. Ég veit ekki einu sinni hvort þeim líði yfirhöfuð öllum vel. Hvort ég sé að hugsa um þær á þann hátt sem þeim þætti bestur. Í einu horni stofunnar er ég svo með ræktunarkassa með LED ljósi og í honum eru einhverjar kryddjurtir. Gallinn við kassann er að hann er heldur stór og kryddjurtirnar hefði ég helst viljað hafa í eldhúsinu. Á svölunum - sem eru ónýtar - er svo fullt af blómum, lítið birkitré í potti og jarðaberjaplanta á einum sólstólnum.

Af hverju geri ég þetta?

Ég velti fyrir mér hvort plönturnar færi einhverja ró eða áskorun. Kannski tengi ég falleg heimili alltaf við plöntur. Mamma og amma voru mjög duglegar að hafa plöntur í kringum sig. Mér þykir þó að einhverju leyti líklegt að ég geri þetta í einhverri viðleitni til að sannfæra sjálfa mig um að ég geti haft blómlegt heimili þótt ég búi ekki erlendis.

Á þeim dögum þar sem sumarið er vissulega fallegt í Reykjavík þá getur manni þótt auðvelt að blekkjast af því en ég finn það nánast alla aðra daga að í mér er einhver innri löngun í sólina. Líf og tilveru einhvers staðar þar sem veðrið er ekki áhrifavaldur í lífi og geðheilsu fólks.

Draumurinn lifir

Í mér blundar alltaf draumur um að flytja til sólríkari landa. Lengi vel tengdist þessi draumur sérstaklega borginni Barcelona sem ég heimsótti reglulega á tímabili. Þangað fórum við Svavar í fyrstu utanlandsferðina okkar saman og það er því líklegast viðeigandi að við séum á leiðinni þangað eftir 10 daga. Í fyrstu ferðina okkar saman eftir heimsfaraldur - og í fyrstu ferðina síðan Svavar hálsbrotnaði.