.

View Original

Velkomin! Fjölskylda & auðvelt...

Ég tók meðvitaða ákvörðun að breyta þeim orðum sem taka á móti fólki við komuna á þessa síðu úr Hakuna Matata yfir í arabísku orðin Ahlan wa Sahlan.

Allt í einu þótti mér stinga í stúf að ég væri að nota orðin Hakuna Matata sem hluta af lógói og yfirskrift fyrir heimasíðuna mína. Ég á engar ættir að rekja til landa þar sem talað er Swahili og þótt mér þykir ógurlega vænt um orðin - og möntruna sem fylgir merkingunni - þá hef ég komist að því að Disney hefur eignað sér þessi orð (sem voru löngu orðin… orð… áður en Lion King varð til). Ég mundi hvað það fór í taugarnar á mér þegar ég frétti að Disney vildi eiga höfundarréttinn á nafninu Loki - algjörlega í trássi við okkar norræna sagnaarf. Þegar ég set það í samhengi þá sé ég að ég vil þá ekki sjálf vera að gera það sama og Disney, frekar styð ég baráttuna hjá Swahili-mælandi fólki sem finnst þetta absúrd. Þau geta ekki notað venjulega setningu úr sínu eigin tungumáli af því að tæknilega séð á Disney hana - og græðir á henni.

Nú er ég alls ekki að segja að enginn eigi að læra orð og segja eitthvað á tungumálum sem þau eiga ekki ættir að rekja til, alls ekki. Þvert á móti hvet ég til þess! Mér þykir líka enn vænt um armbandið og möntruna. Mér finnst þó vera munur á því að nota orð og setningar í daglegu lífi, eða að nota það sem hluta af lógó fyrir heimasíðuna mína. Ég hugsaði því með mér að ég gæti nú örugglega fundið eitthvað sem tengdist mér meira persónulega fyrir brandið mitt (sem er jú ég).

Þannig að, hér eru orðin og skýringin á þeim.

"Ahlan wa Sahlan"; er yfirleitt þýtt sem "velkomin", en upprunaleg setning og samhengi er lengra og flóknara.

Upprunalega setningin er :

حَـلَـلْـتَ أهلاً ونزَلتَ سهلاً

[halalta ahlan wa nazalta sahlan]

[halalta] merkir “þú ert komin/nn/ð”
[ahlan] er þolfallsmynd af orðinu (ahl) sem þýðir fjölskylda. Það er t.d. hægt að segja [ahli] sem þýðir “fjölskyldan mín” eða “fólkið mitt”
[nazalta] merkir “að koma, fara til, dveljast (í húsi eða á hóteli).
[sahlan]- þolfallsmynd af orðinu [sahl] sem merkir “aðgengilegt eða slétt (land eða vegur).

Þess vegna er þýðingin í raun
”Þú ert komin meðal fólks sem er líkt og fjölskylda þín og til staðar sem er aðgengilegur”.

Þessi frasi styttist síðan niður í [Ahlan wa Sahlan]!