Eitt rósrautt ský - skrifað 30. júní 2021
Ég sit og stroka ítrekað út það sem ég hugsa. Horfi á brjálæðislega flott útsýni út á sjó, sólsetur seint í júlí, og finn fyrir einhverjum baráttuinnblæstri. Langar að skrifa einhverja hugvekju en fæ mig ekki til festa hana í orð.
Mig langar að opna augu allra fyrir kerfinu sem við búum við, sem ósjálfrátt heldur aftur af svo mörgum. Heldur reyndar aftur af flestum nema litlum hópi karlmanna. Ég held nefnilega að þetta sé mjög lítill hópur. Vandamálið er hins vegar að við hin öll, erum svo blind á þetta kerfi, getum ekki ímyndað okkur út fyrir box þess eða út fyrir þær skorður sem það hefur sett okkur. Við erum því föst í því.
Kerfið bitnar á körlum líka. Körlum sem eru blindir á að það bitni á þeim. Þeir geta endurspeglað sig í einstaklingum sem kerfið launar (þ.e. öðrum körlum) svo þeir eiga enn erfiðara með að sleppa tökum af því. Við hin sjáum sum galla kerfisins, enda getum við ómögulega endurspeglað okkur í því. Kerfið vinnur bókstaflega á móti okkur. Allt sem ruggar bát þeirra fáu sem hafa völdin er of óþægilegt fyrir kerfið.
Það getur líka verið erfitt fyrir einstaklinga að sætta sig við að kerfið sem það hefur búið við alla ævi sé rotið. Kannski of stór biti af kökunni að kyngja að ef þetta kerfi hefði ekki verið til staðar, þá hefði það geta gert eitthvað annað.
Oft þegar ég hugsa um ástandið í heiminum verð ég frekar vonlaus. Ég hugsa um alla sem eiga um sárt að binda - ég get ekki einu sinni hugsað um þau öll, þau eru svo mörg - og mér finnst ég hálf asnaleg að geta ekki hjálpað öllum. Ef ég bara gæti hjálpað öllum. Svo fer ég og hugsa um fólkið sem í forréttindum sínum situr heima hjá sér í örygginu og dæmir fólkið sem reynir að flýja ástand sem það sjálft myndi vafalaust ekki láta bjóða sér.
Hvort sem flóttinn er frá stríðsátökum, ofbeldissamböndum eða náttúruhamförum, þá er eins og margt fólk sjái vandamálið felast í þeim sem flýja frekar en ástandinu sem það flýr.