.

View Original

Hrikalega fallegt veður

Af einhverjum ástæðum finnst mér eins og ég sé ekki nógu einlæg þegar ég sest niður til að skrifa. Einhvern tímann áður fyrr hefði ég skrifað bara til að skrifa og ekki velt fyrir mér hvort einhver læsi þþað. Nú er ég greinilega orðin svo gegnsósa af vangaveltum um hvað selur og hvað ekki að ég á erfitt með að vera einlæg.

Hér er allavega tilraun til þess. Á síðustu vikum, árum, mánuðum, eitthvað, hef ég mikið verið að velta fyrir mér fordómum í íslensku samfélagi. Það náði mögulega hápunkti (ívið snemma) í janúar 2015 þegar það gekk svo langt að mér var boðið í viðtal í Ísland í dag, til að tala um fordóma og íslenskt samfélag. Þar náði ég mínum 15 mínútum af frægð og mánuði seinna var ég farin til Egyptalands og fjaraði því þessi skammfengna frægð hratt út. Ég hef alltaf haldið áfram að vekja athygli á þessu málefni og á endanum skrifaði ég svo MA ritgerðina mína um það efni.

Nýlega var mér svo boðið að halda erindi á vegum jafnréttisnefndar Menntavísindasviðs ásamt Chanel Björk. Það gekk mjög vel og kom mér á óvart hversu margir hlustuðu á erindið okkar, hátt upp í 100 manns. Ég er mjög stolt af þessu og að hafa náð að vinna sjálfri mér inn trúverðugleika í samræmi við metnað minn og áhuga á málefninu.

Nema bara það, og þetta er alls ekkert neikvætt, að nú hefur verið haft samband við mig frá félagsmiðstöð úti á landi sem óskar eftir fræðslu um fordóma fyrir nemendur í grunnskóla þar í bæ. Svo sem ekki í frásögur færandi og ég er ótrúlega snortin að leitað hafi verið til mín - en úff púff hvað mér finnst það líka stressandi. Ég er bara eitthvað óttaslegin við að tala við unga krakka, eins og ég þurfi að setja mig í aðrar stellingar (jú auðvitað þarf ég að gera það) við að segja frá - eða vera ég, en bara öðruvísi.

Ég er nokkuð viss um að kannski er bara alls ekkert málið að vera með áhyggjur af þessu yfirhöfuð.