.

View Original

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag er Alþjóðlegur baráttudagur kvenna.

Held að það sé ágæt stund til að þakka fyrir þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur skapað fyrir okkur konur og þann jöfnuð sem mælist einhver sá mesti í heiminum.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa fögur orð og aðgerðir litla þýðingu ef vitundarvakning verður ekki í samfélaginu samhliða þeim breytingum sem talað er fyrir. Mér fannst slíkt eiga sér stað þegar MeToo umræðan stóð hæst. Ég fattaði þá sjálf að margoft hafði ég orðið fyrir óviðeigandi hegðun sem ég kenndi sjálfri mér um eða þorði ekki að segja frá. Ég fattaði enn frekar þá að hvað það er mikill kraftur í röddum okkar allra, þegar við sameinumst í einum rómi og bendum á það sem má betur fara.

Við erum kannski númer 1 á listunum og getum fagnað því en það er ekki þar með sagt að hér megi ekki gera betur.

Inn á hóp einn á Facebook deildi einhver mynd í dag, þar sem athugasemdir þingmanna úr Klaustursmálinu voru skrifaðar upp svart á hvítu. Viðbrögðin í þessum hóp, sem hefur kannski ekki verið þekktur fyrir sérstaklega góðar skoðanir svona almennt, voru á þá leið að fáránlegt væri að vera enn að gera veður úr þessu.

En, þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, sem eiga að vera að taka ákvarðanir sem varða alla þjóðina, tala svona um samstarfskonur sínar, hvernig líður þeim gagnvart öðrum konum úti í samfélaginu?

Erum við allar bara húrrandi klikkaðar kuntur ef við vogum okkur að taka pláss og hafa skoðanir? Skiptir útlit okkar enn máli þegar hugmyndir okkar eru metnar að verðleikum? Miðað við það sem var sagt á Klausturbar þá já, hjá þessum týpum greinilega. Og hjá þeim sem verja þessar týpur og finnst fáránlegt að við séum enn að spá í þessu, já greinilega.

Það er eitthvað mikið að þegar fólki finnst það vera að rugga bátnum of mikið ef tekin er afstaða gegn svona niðurlægjandi umræðu í garð kvenna.

Þetta sýnir bara að við séum ekki komin eins langt og við höldum. Baráttunni er aldrei lokið. Við þá, sem lögðu grunninn að því mikla jafnrétti sem við búum vissulega við í íslensku samfélagi, segi ég takk. Við okkur hin, sem berum ábyrgð á framtíðinni segi ég áfram gakk. Það er ekki hægt að stoppa núna, jafnvel þótt einhver listi segi að við séum númer eitt.

Ps. jafnrétti kvenna á Íslandi er líka mjög háð uppruna þeirra, við eigum mikið eftir í baráttunni fyrir jafnrétti kvenna af erlendum uppruna en það er efni í aðra færslu við annað tækifæri.