.

View Original

Gagnrýni á morgunblaðsgrein

Ég les nú yfirleitt ekki innsendar greinar í Morgunblaðið en einhverri týpunni fannst þetta svo frábær grein að henni var deilt inn á Stjórnmálaspjallið, þar sem ég rakst á hana (mæli svo sem ekki með Stjórnmálaspjallinu, en ég skráði mig þar inn í fræðilegum tilgangi - allt fyrir háskólanámið).

Innsenda greinin í Morgunblaðið setur upp að tjáningarfrelsinu séu settar skorður og vitnar höfundur hennar til þess í fræðigrein sem hann las og segir um hana þetta: ,,Það er eins og þessir höfundar [fræðigreinarinnar] séu andvígir því andlega frelsi sem felst í frelsi okkar til tjáningar. Ritgerðin telst varla uppfylla fræðilegar kröfur sem gera verður til ritsmíða háskólakennara. Hún er frekar einhvers konar boðun á fagnaðarefni höfundanna”.

Greinin fjallar á fræðilegan hátt um hatursorðræðu á Íslandi. Ég ákvað að lesa hana út af þessari fullyrðingu hér að ofan, þ.e. að hún vegi að tjáningarfrelsinu, geti varla talist fræðigrein og sé frekar boðun á fagnaðarefni höfunda en öðru.

Ég hef nokkuð út á þetta að setja.

Tjáningarfrelsi er eitt. Hér er hann að tjá sig um þessa grein. Hann lýsir yfir andúð sinni á greininni. Allt í góðu með það. Er það hatursorðræða sem ber að banna? - Nei.

Hefði hann hins vegar sagt að það ætti að myrða þessar konur fyrir að skrifa greinina, þá myndi það nú líklegast flokkast sem haturstjáning í garð kvenna. En, hann gerir það ekki. Hann er bara að tjá sig. Sem er stjórnarskrárbundinn réttur hans.

En hann vill meina í að þær séu að vega að tjáningarfrelsi þeirra sem spúa hatri, og bókstaflega brjóta lög þessa lands um hatursorðræðu.

Þá erum við komin á allt annan stað. Hatursorðræða er bönnuð með lögum á Íslandi og reyndar í flestum nágrannaríkjum okkar. Skilgreiningin á henni er skilmerkilega sett fram í grein kennaranna, sem gera reyndar allri gagnaöflun og kenningum sem þær notast við mjög vel skil. Ég veit ekki hvað það þarf frekar til að grein verði fræðileg. Mig grunar að hann hafi frekar í hyggju að ýta á undirliggjandi hátt undir efasemdir ákveðins fólks um störf háskólasamfélagsins.

Í Morgunblaðsgreininni er það sett fram að höfundar fræðigreinarinnar séu að reyna "reisa því skorður" að fólk megi tjá sig um múslima. Ef fræðigreinin er lesin má sjá að í henni er aðallega fjallað um þrjú efni í samhenginu um haturstjáningu, þ.e. þau efni sem European Commission against Racism and Intolerance telur ábótavant á Íslandi; fordómar gegn samkynhneigðum, múslimum sem og umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Lesist fræðigreinin má einnig sjá að þær eru engan veginn að reyna að hindra tjáningarfrelsi, heldur einfaldlega að tala um og benda á hatursfulla tjáningu sem brýtur grein 233a almennra hegningarlaga um haturstjáningu og þær afleiðingar sem það getur haft fyrir samfélagið þegar sú tjáning fær að vera í friði, sem og að benda á hvaða aðstæður hafa skapað slíkt umhverfi og hvaða aðstæður slíkt umhverfi getur leitt af sér.

Einnig benda þær á tölfræði um aukningu hatursglæpa og uppgang haturshópa, en hið síðara er t.d. raunin á Íslandi.

Fræðigreinin hefur því bersýnilega ekki að markmiði að hefta tjáningu fólks á skoðunum sínum á ákveðnum minnihlutahópum heldur einfaldlega að benda á hatursfulla orðræðu í garð þessara tilteknu hópa á Íslandi og gefa dæmi um það. Í grein Morgunblaðsins kvartar hann einnig yfir því að höfundar fræðigreinarinnar nafngreini aðila sem hafa látið ummæli falla. Ég sé ekki betur en að þau ummæli sem þær nafngreina séu ummæli sem eru birt á opinberum vettvangi, þar sem allir hafa aðgang að ummælunum og nafni þess sem átti þau.

Og talandi um að nefna hluti. Höfundur Morgunblaðsgreinarinnar nefnir aldrei nafn greinarinnar sem hann er að gagnrýna, heldur talar bara um að hann hafi lesið grein eftir háskólakennara um "haturstjáningu á Íslandi".

Greinin heitir: ,,Grýta þetta pakk" - Haturstjáning á Íslandi - ég setti slóðina að henni hér fyrir neðan fyrir hvern sem hefur áhuga á - og vísar fyrri setningin í titlinum til alvöru athugasemdar sem einhver samlandi okkar (ekki nafngreindur í fræðigreininni sjálfri) lét falla um fólk sem mótmælti bágum kjörum sínum í ferlinu um umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi. Nú er ég nota bene ekki að segja að það séu ekki Íslendingar sem hafi það slæmt hérna heldur, en því virðist oft slegið upp á móti þessu; eitt slæmt vegur ekki út annað slæmt og bágar aðstæður eins hóps skapa ekki bágar aðstæður annars.

Rúsinan í pylsuendanum á þessari umfjöllun í Morgunblaðinu er, að mínu mati, niðurlagið. Þá kemur kapítalisminn til sögunnar, greinilega riddarinn á hvíta hestinum sem allt þetta snerist í raun um. Því til þess að standa vörð um tjáningarfrelsið ættu menn að "sameinast um það markmið að efla kapítalismann".

Kapítalisminn skapar nefnilega viðskipti og við græðum öll á viðskiptunum, allur almennur borgari þessa lands.

Ég veit reyndar ekki betur en að ég hafi aldrei fengið að sjá aur af þessum milljónum sem menn eru að greiða sér í arð hérna út um hvippinn og hvappinn - en ég er sennilega bara vanþakklát eða eitthvað.

http://www.irpa.is/article/download/a.2019.15.2.6/pdf