.

View Original

Art de Vivre

Það er ekki komin vika síðan ég mætti til Parísar. Fyrir viku var ég nýkomin niður af Sólheimajökli með unnustanum, sem er öllu fróðari um jökla en ég. Daginn áður en við komum hrundi stórt stykki úr jöklinum og niður í lónið þar fyrir neðan, með meðfylgjandi flóðbylgju. Viðstaddir áttu fótum fjör að launa. Eða allavega þurra sokka að launa, hún var nú kannski ekki mannskæð þessi.

Það var mjög frískandi að komast upp á jökul - drekka ískalt vatn beint af náttúrunnar hendi og njóta útsýnisins. Jökullinn hopar ansi hratt þessa dagana og ógnvænleg tilhugsun að sjá hvernig þessi risi sem staðið hefur (þó margbreytilegur) í gegnum tímanna rás veslast upp og skrælnar (svo ég vitni í lagið X með Hatara).

Það er nefnilega ekkert hundrað prósent þegar kemur að tímanum. Þann lærdóm hef ég dregið af síðustu dögum þó á uppbyggilegri hátt en að vera líkt við jökul sem bráðnar. Það var eins og klukkan væri í kapp við mig síðustu dagana heima á Íslandi, um það hvor okkar gæti verið á undan að koma sér til Parísar. Það vantaði nokkra tíma aftan við hvern dag til þess að ég gæti klárað allt, hitt alla og skipulagt mig nógu vel til að mæta ekki til Parísar með engan tannbursta né svitalyktareyði en tvö sett af sundfötum.

En hvernig er annars lífið í París? Ég er lítið nettengd eins og er, bíð eftir tengingu í litlu íbúðina mína og netið í símanum er slitrótt. En ég hef ýmislegt annað að bardúsa. Ég teikna og skrifa á pappír (eins og í gamla daga) og æfi mig á Ukulele. Ég skrifaði líka ljóð um það, það er nú óskaplegur aumingi.

Tónarnir takast á loft,

tíminn mun koma:

í örlögin hendurnar fel ég,

í hendurnar örlögin sel ég

sálina fyrir Ukulele

(hæfileika. takk)

Annars fer ég í metro í vinnuna og nota til þess litla lestarmiða sem má alls ekki týna, né beygla (meira um þá síðar). Lestin kemur að því er mér sýnist á tveggja mínútna fresti (sennilega meira 4ja mínútna) en samt sé ég Frakkana hlaupa til að ná þeim og ég hlæ alltaf innra með mér af því hvernig ég missti stundum af strætó heima á Laugarnesvegi og fór heim og náði heilum þátt af Modern Family áður en ég þurfti að labba aftur út (nema á álagstímum, bara korter takk fyrir pent).

Á leiðinni heim í metroinu í dag settist ungur drengur á móti mér. Hann hafði beðið konuna sem sat í sætinu um að færa sig og hún hlýddi því. Hann benti svo á skóinn sinn og ég skildi það sem svo að hann þyrfti að hafa fótinn uppi í sætinu á móti (mögulega vegna meiðsla). Franskan mín er ekki fullkomin (þó góð sé) þannig að ég skyldi ekki að hann var að biðja mig um aðstoð við að reima skóinn. Að lokum fattaði ég það og settist niður og aðstoðaði hann. Hann spurði mig nokkrum sinnum hvernig ég hefði það og þegar ég gerði mig líklega til að fara út tók hann í höndina á mér og þakkaði fyrir sig. Kannski gerði þetta mig svo glaða af því að flest samskipti innan neðanjarðlestakerfisins í París eru voða svona, ekkert augnsamband, allir að stara í síma eða bók eða að reyna að mjaka sér nær útganginum tímanlega. Þetta var því heldur betur tilbreyting og ég fór út á Barbès-Rochechouart stöðinni glöð yfir því að hafa verið sú sem rakst á þessa mannveru af öllum þeim fjölda sem ferðast í metróinu á þessum tíma dags.

Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni. Art de Vivre er nafnið á fyrstu vínflöskunni sem ég keypti hérna og stendur á borðinu mínu. Merlot, 2017. Það var bara ágætt, 37,5 cl flaska sem kostaði 2 €.

Þangað til næst,

Merci.